135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[16:13]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hér koma til atkvæðagreiðslu fjögur stór frumvörp, viðamikil mál sem menntamálanefnd hefur verið að vinna síðan í desemberbyrjun. Það er með blendnum tilfinningum sem við göngum til þessarar atkvæðagreiðslu vegna þess að vel skal vanda það sem lengi á að standa. Þrátt fyrir talsverða vinnu í menntamálanefnd má segja að málin hafi verið að ákveðnu marki það ófullburða þegar þau komu inn í nefndina að ekki hafi verið hægt að gera á þeim allar þær lagfæringar sem að mati okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefði þurft. Til marks um það er allur sá fjöldi málefnalegra umsagna og breytingartillagna sem nefndinni bárust sem ekki reyndist unnt að taka afstöðu til.

Við flytjum margháttaðar breytingartillögur við leikskóla-, grunnskóla- og menntunarfrumvarpið. Við munum eftir atvikum síðan styðja eða sitja hjá við breytingartillögur meiri hlutans og áskilja okkur rétt til að flytja frekari breytingartillögur við einstakar greinar við 3. umr.