135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[21:07]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vísaði hér í upphafi máls míns til þeirra fyrirvara sem ég hafði á um þetta mál við 1. umr. og hvernig það hefur síðan í meðförum nefndarinnar þróast í alveg öfuga átt sem ég tel ekki vita á gott. Því verður ekki á móti mælt að þeir þröskuldar sem menn færðu málinu til tekna frá þeim sjónarhóli sem hv. þingmaður talaði, hafa verið lækkaðir í meðförum nefndarinnar. Það er þróun málsins í öfuga átt út frá nákvæmlega þessum sömu sjónarmiðum sem hv. þingmaður telur sig vera að tala hér fyrir.

Ég held að við eigum ekki að vera að deila hvert við annað og gera hvert öðru upp skoðanir. Það eru engin efni til þess að gera okkur í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði upp önnur sjónarmið en þau að við viljum opinbert eignarhald á auðlindunum og þessari þjónustu. Munurinn er sá að við viljum ekki taka þá áhættu að einkavæðingu sé galopnuð leið svona langt inn í fyrirtækin og svona nálægt auðlindunum og að svo stórum hluta eins og þetta frumvarp gerir. Eignarhald stóru orkufyrirtækjanna í dag er bundið af öðrum ástæðum. Það er bundið af lögum um Landsvirkjun o.s.frv. og er pólitískt valdað.

Hér er verið að búa út lagaramma sem opnar þessar dyr, það er veruleikinn, það er ekki hægt að neita því, hv. þingmaður, því miður. Menn geta sagst vera í góðri trú um að ekkert slíkt standi til en því miður er þetta innihald málsins og það þýðir ekkert að horfa fram hjá því, það er eins og það er.