135. löggjafarþing — 109. fundur,  27. maí 2008.

heimild ríkissjóðs Íslands til sérstakrar lántöku á árinu 2008.

640. mál
[11:07]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætlaði svo sem ekki að fara rangt með þau orð sem hv. þingmaður hafði um ræðu mína, það var ekki ætlunin, en ég vona að ég hafi náð innihaldinu með því sem ég sagði.

Ég held að orð hv. þingmanns hér í andsvarinu endurspegli kannski aðeins mismunandi afstöðu mína og hans til gildis þess að halda ræður. Ég held að gildi þess sem við erum að ræða hér í dag felist í efnisatriðum frumvarpsins og því hvernig það er metið úti á markaðnum á efnislegum forsendum en ekki af því að ég haldi hér innblásnar og háttstemmdar ræður um það hvað ríkisstjórnin vilji og ætli að gera. Það eru aðgerðirnar sem felast í frumvarpinu sem skipta máli.

Mér þykir þó vænt um það að hv. þingmaður er alla vega í ræðu sinni aðeins að koma til móts við mig með það að það er ekki bara eitthvað sem hefur misfarist hér á síðustu árum sem veldur þeim vandkvæðum sem við erum að glíma við. Það hefur enginn neitað því að alltaf eru uppi einhver erfið málefni sem stjórnvöld þurfa að glíma við og verður væntanlega alltaf. Það er alltaf eitthvað nýtt að gerast og alltaf eitthvað nýtt sem við þurfum að taka afstöðu til. En ég held að hann hljóti að vera sammála mér um það að við hefðum haft allt annað ráðrúm og allt aðrar aðstæður og staðan væri væntanlega allt önnur hjá okkur í dag ef ekki hefði komið til þessi alþjóðlega lausafjárkreppa sem á rót sína að rekja í undirmálslánunum á húsnæðismarkaðnum í Bandaríkjunum. Ég held að við hljótum að vera sammála um það.