135. löggjafarþing — 109. fundur,  27. maí 2008.

flutningur stjórnsýslu- og eftirlitsverkefna á sviði lax- og silungsveiði o.fl. til Fiskistofu.

531. mál
[11:59]
Hlusta

Frsm. sjútv.- og landbn. (Arnbjörg Sveinsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti, öðru í röðinni um fiskeldis- og fiskræktarmál. Nefndarálitið er um frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna flutnings stjórnsýslu- og eftirlitsverkefna á sviði lax- og silungsveiði, fiskræktar o.fl. til Fiskistofu. Nefndarálitið er frá sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd.

Nefndin fjallaði um málið og fékk á fund sinn þá sömu og komu vegna hins fyrra máls sem við ræddum næst á undan.

Umsagnir bárust frá 13 aðilum og þær umsagnir voru vel skoðaðar í sambandi við vinnslu á málinu.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum í þeim tilgangi að flytja stjórnsýslu- og eftirlitsverkefni á sviði lax- og silungsveiði og fiskræktar og önnur verkefni sem varða stjórnsýslu ferskvatnsfiska frá Matvælastofnun til Fiskistofu auk þess sem lagðar eru til breytingar á starfsemi Veiðimálastofnunar. Frumvarpið er lagt fram samhliða frumvarpi til laga um fiskeldi, samanber 530. mál á þskj. 831.

Á fundum sínum ræddi nefndin sérstaklega tilhögun þá sem lögð er til í frumvarpinu um að bundið verði í lög að framkvæmd stjórnsýslu veiðimála verði á sérstöku sviði á Fiskistofu sem nefnast eigi veiðimálasvið. Telur nefndin að þegar litið er til þess sem almennt gerist með stofnanir ríkisins, að forstjóri og stjórn stofnunar ákveða skipurit stofnunar, verði það að teljast of hamlandi fyrir stjórn stofnunar að binda hluta skipurits í lög enda nauðsynlegt að hafa sveigjanleika í opinberri stjórnsýslu. Á fundum nefndarinnar kom fram að þó að heitin veiðimálasvið og veiðimálastjóri séu rótgróin starfsheiti sem falli vel að þeim verkefnum sem unnið er að á þessu sviði falli þau ekki nægilega vel að núverandi starfsskipulagi Fiskistofu. Nefndin leggur því til breytingar á 14. og 15. gr. frumvarpsins í þá veru að stofnað verði sérstakt svið til að sinna þessum málaflokki og að það verði fært í lög um lax- og silungsveiði í stað laga um Fiskistofu, eins og frumvarpið kveður á um. Nefndin leggur enn fremur til að heiti sviðsins verði breytt í lax- og silungsveiðisvið og að yfirmaður þess beri starfsheitið sviðsstjóri í stað starfsheitisins veiðimálastjóri. Fiskistofustjóri skal ráða sviðsstjóra til að stýra því sviði og skal hann hafa háskólapróf sem nýtist honum í starfi og heyra undir fiskistofustjóra. Þá er einnig lagt til að öll sérákvæði er varða starfsemi sviðsins verði færð í lög um lax- og silungsveiði, svo sem ákvæði frumvarpsins í 15. gr. um veiðieftirlitsmenn sem njóta ákveðinnar sérstöðu þar sem þeir eru samkvæmt gildandi lögum skipaðir af Matvælastofnun en eru starfsmenn veiðifélaga.

Loks leggur nefndin til smávægilegar lagfæringar á lögum um lax- og silungsveiði, þ.e. að í stað Matvælastofnunar komi Fiskistofa vegna tilfærslu verkefna til hennar samkvæmt fyrrnefndu frumvarpi til laga um Fiskistofu. Þá leggur nefndin einnig til að tiltekið verði í lögum um Fiskistofu að fiskeldi sé ein af þeim greinum sem falla undir stjórnsýsluverkefni stofnunarinnar.

Nefndin ræddi á fundum sínum heimild Veiðimálastofnunar til að eiga aðild að rannsóknafyrirtækjum samkvæmt 3. gr. frumvarpsins og þær athugasemdir sem borist hafa nefndinni um að með heimildinni sé stofnuninni gert fært að stunda óheft rekstur hlutafélaga og félaga með takmarkaðri ábyrgð í samkeppni við einkafyrirtæki. Nefndin fékk staðfestingu á að þarna er einungis um að ræða fyrirtæki sem eiga að þróa hugmyndir og hagnýta rannsókna- og þróunarverkefni sem stofnunin sjálf vinnur að hverju sinni en Veiðimálastofnun er í eðli sínu rannsókna- og þróunarstofnun. Því er ekki talið að þau fyrirtæki geti verið samkeppnishamlandi fyrir önnur fyrirtæki sem stunda rannsóknir í samkeppni við Veiðimálastofnun. Bendir nefndin í því sambandi á að svipuð ákvæði í lögum um flestar ef ekki allar rannsókna- og þróunarstofnanir ríkisins, m.a. í lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna að því er varðar Hafrannsóknastofnunina og Landbúnaðarháskóla Íslands, lögum um heilbrigðisþjónustu að því er varðar rannsóknastofnanir í heilbrigðisþjónustu, svo og í lögum um Íslenskar orkurannsóknir. Telur nefndin að með slíkri heimild geti stofnunin betur tekið þátt í þróunarvinnu og notið arðs af henni og breytt hugmyndum í verðmætar afurðir. Fyrir nefndinni kom einnig fram að Veiðimálastofnun hefur komið að þróun og prófunum á ýmsum tækjum sem nýta má til rannsókna og hefur ýmis rafeindabúnaður, svo sem mælimerki og fiskteljarar, verið þróaður þannig án þess að stofnunin njóti góðs af því með beinum hætti. Telur nefndin að með þessu móti skapist einnig sterkari og betri tengsl við atvinnulífið en allmörg dæmi eru um að sprotafyrirtæki hafi orðið til á þennan hátt sem seinna hafi orðið að öflugum fyrirtækjum. Nefndin leggur þó áherslu á að nauðsynlegt sé að gæta að reglum samkeppnis- og stjórnsýslulaga við nýtingu þessarar heimildar.

Á fundum nefndarinnar var einnig rætt um aðgengi að gögnum hjá Veiðimálastofnun en fram kom að Veiðimálastofnun hefur safnað og unnið gögn um veiði í ám og vötnum frá upphafi. Í eðli sínu eru þessi gögn líffræðilegar upplýsingar sem nýta má við rannsóknir á veiðistofnum í ám og vötnum. Með frumvarpinu er verið að koma þessum málum í fastar skorður en fram kom fyrir nefndinni að á það hefur skort hin síðari ár. Gert er ráð fyrir að Fiskistofa verði stjórnvaldið en Veiðimálastofnun framkvæmdaraðilinn. Veiðiskýrslur eru mikilvægt tæki fyrir stjórnvöld og veiðifélög vegna veiðistjórnunar og fyrir rannsóknaraðila vegna rannsókna- og ráðgjafarstarfa á sviði veiða og fiskræktar. Telur nefndin því mikilvægt að um söfnun og úrvinnslu veiðigagna gildi skýr lagaákvæði þar sem þetta séu grundvallargögn fyrir alla sem að veiðimálum koma og með því að tryggja aðgang að þessum gögnum sé samkeppnisstaða annarra rannsókna- eða ráðgjafaraðila tryggð.

Loks leggur nefndin til breytingu á frumvarpinu sem leiðir af breytingu þeirri sem nefndin leggur til á frumvarpi til laga um fiskeldi, samanber 530. mál á þskj. 831, sem lagt er fram samhliða. Nefndin taldi nauðsynlegt að leggja til breytingar á ákvæði til bráðabirgða um að Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefndi fulltrúa í samráðsnefnd um framkvæmd laga um fiskeldi. Verða fulltrúarnir í nefndinni þá tólf talsins og leggur nefndin einnig til að atkvæði formanns ráði úrslitum ef ágreiningur verður í nefndinni. Samráðsnefndin hefur það hlutverk að fylgjast með og stuðla að greiðri framkvæmd og virkum skoðanaskiptum þeirra er varða lög um fiskrækt, lög um Veiðimálastofnun, lög um varnir gegn fisksjúkdómum og lög um lax- og silungsveiði og leggur því nefndin til að ákvæði til bráðabirgða í þeim lögum sem um samráðsnefndina fjalla verði samræmd.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum í 11 liðum sem lagðar eru til í þingskjali 1134.

Helgi Hjörvar var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Undir álitið rita Arnbjörg Sveinsdóttir formaður, Karl V. Matthíasson, Gunnar Svavarsson, með fyrirvara, Atli Gíslason, með fyrirvara, Kjartan Ólafsson, með fyrirvara, Birkir J. Jónsson, Jón Gunnarsson, með fyrirvara, Grétar Mar Jónsson.