135. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2008.

flutningur stjórnsýslu- og eftirlitsverkefna á sviði lax- og silungsveiði o.fl. til Fiskistofu.

531. mál
[11:00]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég er ánægð með að það komi fram ósk um að málið komi til nefndar fyrir 3. umr. Ég hefði farið fram á það ef sú tillaga hefði ekki þegar komið fram vegna þess að svo ber við að þrír hv. þingmenn ríkisstjórnarflokkana eru með fyrirvara við afgreiðslu þessa máls frá nefnd og þeir gerðu ekki grein fyrir þeim fyrirvara við umræðuna svo ég viti. Það verður þá forvitnilegt að heyra það í nefndinni hverjir þessir fyrirvarar eru því að mér finnst þetta vera dæmigert fyrir lausungina sem er í stjórnarsamstarfinu. Hv. formaður sem er fræg fyrir það að reka tryppin sín en einhverra hluta vegna hefur hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur ekki tekist að koma þessum ágætu þingmönnum inn á línuna þrátt fyrir að fluttar hafi verið 11 breytingartillögur við málið. Ég sagði við 2. umr. að hægt hefði verið að flytja þá 12. ef það hefði orðið til þess að stjórnarsinnar hefðu getað stutt þetta mál eins og menn.