135. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2008.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 49/2007, um breytingu á IV. viðauka við EES-samninginn.

558. mál
[11:19]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hér er lögð til innleiðing á tilteknum þáttum sem tengjast orkutilskipunum Evrópusambandsins og breytingum á IV. viðauka. Við þingmenn Vinstri grænna vorum andvíg því á sínum tíma að Ísland innleiddi þessar tilskipanir og töldum rétt og teljum rétt að Ísland reyni að semja um undanþágu frá þeim þar sem þær eiga ákaflega illa við íslenskan orkumarkað, einangraðan og sjálfstæðan. En megininntak regluverksins er að innleiða samkeppni í viðskiptum yfir landamæri og búa til sameiginlegan raforkumarkað á meginlandi Evrópu.

Það má að auki geta þess að þessu máli fylgja óvenjulega fátæklegar upplýsingar um það hvaða áhrif innleiðingin hefur í för með sér og aðstandendur málsins segja sjálfir að ekki sé að svo stöddu unnt að segja til um áhrif tilskipunarinnar og innleiðingar (Forseti hringir.) hennar á íslenska hagsmuni og íslensk lög. Það er því tæpast boðlegt, einnig af þessum ástæðum, að standa að ákvörðunum um fullgildinguna eins og hér á að gera.