135. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2008.

samkeppnislög.

384. mál
[11:55]
Hlusta

Frsm. viðskn. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það fyrsta sem Samkeppniseftirlitið gerir í hverju tilviki er að skilgreina markaðinn. Annars vegar er það landfræðilegur markaður og hins vegar vörumarkaður. Landfræðilegi markaðurinn getur náð út fyrir landsteinana en vörumarkaðurinn getur líka verið mjög flókinn. Við erum oft með staðgönguvörur og annað slíkt sem keppa á sama markaði. Kók og pepsí eru besta dæmið um staðgöngumarkað.

Ég get ekki tekið undir að Samkeppniseftirlitið eigi að setja einhvers konar kröfur á fjármálastofnanir að halda úti einhverri lágmarksþjónustu. Mér finnst það ekki vera hlutverk Samkeppniseftirlitsins. Þá erum við komin svolítið langt og talsvert lengra en ég þekki nokkurs staðar í Evrópu.

Ef ég fer aftur í fyrri hluta ræðu hv. þingmanns varðandi viðskiptasiðfræði og siðferði tek ég undir það að mér finnst að markaðurinn ætti að sjálfsögðu að íhuga að setja sér siðareglur, hvort sem það eru bankarnir, lífeyrissjóðirnir, fjárfestar eða aðrir. Mér finnst það vera rökrétt. Mér finnst að fyrirtækin hafi samfélagslegar skyldur. Sumir trúa því að eina skylda fyrirtækisins sé að skila hluthöfum sínum hagnaði. Ég lít ekki svo þröngt á hlutverk fyrirtækja. Mér finnst að fyrirtækin í samfélaginu hafi víðtækara hlutverk, hvort sem það er á vettvangi menningar, sem mikilvægur atvinnustaður eða að sýna gott siðferði.

Siðareglur eiga fyllilega rétt á sér eins og hvað varðar t.d. að fjárfesta ekki í vopnaframleiðslu eða öðru slíku. Við sjáum að mörg alþjóðafyrirtæki hafa t.d. gerst sek um að nýta sér barnaþrælkun. Það eigum við að sjálfsögðu ekki að líða. Vegna þess að við vitum að sum alþjóðleg stórfyrirtæki hagnast á slíku vinnuframlagi og þrælkun — því að þetta er þrælkun — eigum við að sjálfsögðu að nota það vald sem við höfum sem neytendur og versla ekki við viðkomandi fyrirtæki. Neytendavaldið er eitt það mikilvægasta vald sem við höfum. Ég veit að það er hægara sagt en gert (Forseti hringir.) en þetta er sá kostur sem við höfum sem neytendur — og við sem stjórnmálamenn að sjálfsögðu — að kalla eftir siðrænni hegðun þessara fyrirtækja því að þau lifa ekki í tómarúmi.