135. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2008.

breyting á lögum er varða verðbréfaviðskipti.

538. mál
[13:44]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingar á lögum er varða verðbréfaviðskipti og hefur hv. þm. og formaður viðskiptanefndar, Ágúst Ólafur Ágústsson, gert grein fyrir því. Þetta er bandormur, þetta eru breytingar á ýmsum lögum, eins og fram kom hjá hv. framsögumanni. Þær lúta í fyrsta lagi að verðbréfaviðskiptum og að uppfyllingu ákveðinna skilyrða frá Evrópska efnahagssvæðinu um í hvaða formi verðbréf geta verið gefin út og á hvaða máli þau eiga að vera. Þarf þá samþykki Fjármálaeftirlitsins til þess að vera með þau á öðrum málum en íslensku og og eins er fjallað um hvernig ber að kynna þau á íslensku. Breytingarnar taka til ýmissa fleiri atriða.

Ég ætla fyrst og fremst að beina umræðunni að ákveðnu atriði. Um það leyti sem nefndin var að afgreiða málið komu tilmæli frá Fjármálaeftirlitinu um að ráðist yrði í breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki sem ekki var inni í frumvarpinu þegar það var flutt upprunalega. Verið er að leggja til að breytingar á þeim lögum þannig að 2. mgr. í 106. gr. laga um fjármálafyrirtæki verði á þá leið að samruni sparisjóðs við annað fyrirtæki sé því aðeins heimill að honum hafi áður verið breytt í hlutafélag samkvæmt ákvörðunum nema þegar um er að ræða samruna tveggja eða fleiri sparisjóða sem ekki hefur verið breytt í hlutafélag. Einnig er þar fjallað um að sparisjóður geti með þessum hætti tekið yfir annað fyrirtæki..

Á undanförnum árum hefur verið tekist á um eignarform á sparisjóðunum, hlutverk þeirra og hvernig farið hefur verið með fé þeirra og hlutverk. Ég kom að því í ræðu hér í morgun að viðskiptabankarnir hver á fætur öðrum hafa á sínu starfssvæði verið að loka útibúum víða. Það hafa þeir gert vegna þess að starfsemin þar er ekki arðbær að þeirra mati. Dæmi um þetta með eru t.d. Landsbankinn á Raufarhöfn þar sem Sparisjóður Þórshafnar síðan yfirtók starfsemina. Ég held að líka að allir aðalviðskiptabankarnir á Vestfjörðum hafa farið út með starfsemi sína og ekki talið hana arðbæra. Eina útibú stóru viðskiptabankanna á Vestfjörðum er enn þá á Hólmavík og þar hafa þeir verið að skera niður þjónustu og fækka starfsmönnum. Við heyrðum nýlega að það ætti að fara að loka útibúi á Hvolsvelli o.s.frv.

Það hefur þá verið mikið bjargráð að þarna hafa verið oft og tíðum — og enn þá í sumum tilfellum — til staðar sparisjóðir sem hafa verið byggðir upp á forsendum heimamanna og gengið inn í þessa starfsemi. Það hafa ekki verið miklar eignir sem þeir hafa tekið við — banki sem yfirgefur viðskiptavini sína á einhverju svæði hefur ekki mikla viðskiptavild að selja. Auk þess er ekki heimilt að selja viðskiptavini banka, þeir eru ekki verslunarvara, þó að það hafi gerst illu heilli þegar Lánasjóður landbúnaðarins var seldur Landsbankanum á einu bretti og viðskipti hans. Menn drógu í efa að það stæðist stjórnarskrána að ráðstafa þannig viðskiptum fólks. Því miður hefur Landsbankinn síðan dregið úr allri þeirri þjónustu sem áður var á vegum Lánasjóðs landbúnaðarins þannig að þeir sem áður áttu innhlaup í Lánasjóð landbúnaðarins eru nú farnir að leita m.a. inn í Byggðastofnun og sparisjóðina sem fyrir hendi eru. Banki sem yfirgefur svæði sitt hefur ekki mikið að selja.

Ég velti því fyrir mér hvað þessi grein þýðir. Hvað þýðir hún í raun? Hvaða eignir getur sparisjóður keypt af banka sem er að leggja niður starfsemi sína og fara? Það getur verið hús en þá er það bara á viðskiptalegum grunni. Ég ítreka því spurningu mína til hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar um orðalagið — sem er varla tilviljun — „samruni sparisjóðs við annað fyrirtæki“. Hvað þýðir það? Ég leyfi mér að fullyrða að þetta orðalag er óheimilt samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki sem lúta að sparisjóðum — að sparisjóði sé óheimilt að renna saman við annað fyrirtæki á þessum grundvelli því að þar er verið að tala um leið fyrir sparisjóðina til að styrkja stöðu sína með því að geta keypt slíkt.

Sparisjóður, þess vegna í nágrenni Hvolsvallar, gæti þá keypt upp útibú KB-banka því að hann væri að loka. Það var sá skilningur sem nefndarmenn lögðu í umræðuna um þetta mál, ekki að sparisjóðurinn rynni inn í einhver fyrirtæki. Ég vil heyra nánar um það hjá formanni hvernig þetta mál hefur komið inn og þessi skilgreining.

(Gripið fram í.) Það er alveg hárrétt, ég treysti Fjármálaeftirlitinu ekki í þessum efnum, það er alveg hárrétt. Ég held að margir sparisjóðir í landinu hafi þá reynslu af Fjármálaeftirlitinu, þótt það telji sig fara að þeim lögum sem það starfar eftir. Þá er alla vega ekki sú trygging þar sem margir hafa vænst frá Fjármálaeftirlitinu, það er alveg víst.

Ég flyt einnig breytingartillögu sem lýtur að sparisjóðunum og er til þess fallin, að mínu viti, að styrkja sparisjóðina. Þar legg ég til að við 1. mgr. 12. gr. laganna um fjármálafyrirtæki bætist nýr málsliður sem orðist svo: Heitið „sparisjóður“ er þó óheimilt að nota með öðrum orðum eða skammstöfunum í firmaheiti.

Auk þess legg ég til að 4. mgr. 73. gr. laganna orðist svo: Sparisjóði sem breytt er í hlutafélag samkvæmt ákvæðum þessarar greinar er óheimilt að nota orðið „sparisjóður“ í heiti sínu.

Síðan legg ég til að 22. töluliður 1. mgr. 110. gr. falli brott sem lýtur einmitt að því sama.

Ég vil flytja hér meðfylgjandi skýringar á þessu, herra forseti. Í þessum breytingartillögum er lagt til að starfsemi þeirra sparisjóða sem áfram vilja bera nafn sparisjóða verði færð aftur til upphaflegs markmiðs við stofnun þeirra. Markmiðið var að stofnfjárhafar hefðu hvorki fjárhagslegan né persónulegan ávinning af stofnun sjóðanna heldur væri stuðningur þeirra persónulegur og endurspeglast það markmið í ábyrgð þeirra á skuldbindingum sjóðanna sem takmarkast við stofnfjárhlut. Enn fremur er lagt til að heitið sparisjóður verði lögverndað, þ.e. að einungis verði heimilt að nota heitið sparisjóður ef um raunverulegan sparisjóð er að ræða en ekki ef sparisjóðnum er breytt í hlutafélag eða hann rekinn sem fjármálastofnun eða almennur banki. Hugtakið sparisjóður er órjúfanlega tengt starfsgrunni og hugsjónum sem réðu við stofnun þeirra. Það er því verið að beita blekkingum ef fjármálastofnun er leyft að bera heitið sparisjóður í nafni sínu þótt hún hafi horfið frá flestum þeim grunnþáttum sem samfélagið leggur í hugtakið sparisjóður. Samkvæmt frumvarpinu verður því óheimilt að nota það með öðrum orðum eða skammstöfunum í firmaheiti fjármálastofnunar.

Sparisjóðir eru að grunni til félagslegar stofnanir og meginhluti eiginfjár þeirra er í sjálfseign, en í reynd í eigu almennings þess nærsamfélags sem viðkomandi sparisjóður þjónar. Sparisjóðirnir voru stofnaðir á grunni hugsjóna félagshyggju og samvinnu til að byggja upp atvinnu- og menningarlíf á heimasvæði sínu. Litið var á stofnfjárhafa sem ábyrgðarmenn og markmiðið var ekki að hámarka arðgreiðslur heldur þjóna samfélaginu. Hlutverk sparisjóðs er að veita almenna fjármálaþjónustu á grundvelli hugsjóna um eflingu og uppbyggingu atvinnulífs og menningarstarfs á heimasvæðinu. Á þessum grunni hafa sparisjóðirnir gegnt lykilhlutverki í fjármálaþjónustu við einstaklinga og minni fyrirtæki, einkum á landsbyggðinni. Stofnfjárhafar sem lögum samkvæmt þurfa að standa að hverjum sparisjóði eru engan veginn eigendur sjóðanna heldur trúnaðarmenn samfélagsins á starfssvæði sjóðanna. Hlutverk stofnfjárhafanna er því að tryggja að sjóðurinn starfi á þessum hugsjónagrunni en ekki að hámarka eigin arðgreiðslur. Í ofantöldu felst ímynd og gildi heitisins „sparisjóður“. Hins vegar ber hlutafélagsbanki engar slíkar samfélagsskyldur heldur er meginmarkmið hans að hámarka ábata og arð eigenda hlutafjárins. Á því er grundvallarmunur.

Vissulega hafa orðið miklar breytingar í rekstri sparisjóða hérlendis að undanförnu en aðdragandi þeirra birtist með stöku fréttum um viðskipti með stofnbréf og sameiningu eða yfirtöku ákveðinna sjóða. Á síðustu missirum hefur átt sér stað býsna hljóð einkavæðing á eigum sparisjóðanna. Hafa þeir átt í vök að verjast gegn aðilum sem reyna að brjótast inn í þá og komast yfir eigið fé þeirra og viðskiptavild, yfirtaka þá og leggja þar með hald á eigur samfélagsins. Bæði löggjafinn og eftirlitsstofnanir virðast meðvitað eða ómeðvitað hafa brugðist þeim skyldum sínum að standa vörð um hugsjónir sparisjóðanna og hagsmuni almennings og einstakra samfélaga sem hlut eiga að máli. Sú spurning hlýtur að verða áleitin hverjum þeim sem virðir hugsjónir sparisjóðanna eða ber rétt samfélagsins fyrir brjósti, hvernig það megi t.d. gerast að hlutur almennings í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hafi lækkað ört hlutfallslega á örfáum árum úr tæpum 90% í 15%, sem var þegar honum var breytt í hlutafélag án þess að neinn hafi haldið uppi vörnum. Horfa má m.a. til Fjármálaeftirlitsins í þeim efnum. Þeir sem sækja hvað harðast á um að komast yfir samfélagseigur sparisjóðanna eða breyta þeim í hlutafélag ættu að hugleiða hvaða lagalegan eða a.m.k. siðferðislegan rétt þeir hafi til að einkavæða samfélagsstofnanir eins og sparisjóðirnir eru og komast yfir samfélagslegar eigur þeirra. Þegar sparisjóði er breytt í hlutafélag er hann ekki lengur sparisjóður heldur einkavæddur banki á markaði.

Í öðrum tilvikum hafa einhverjir aðilar reynt að kaupa út stofnfjárhafa í óvissum tilgangi eins og nú er að gerast með ýmsa sparisjóði. Loks eru einnig sumir sparisjóðir, í slagtogi við fjársterka aðila, að kaupa aðra sparisjóði í tilgangi sem liggur ekki fyrir. Sú virðist raunin varðandi t.d. yfirtöku Sparisjóðs Mýrasýslu og Siglufjarðar á Sparisjóði Skagafjarðar.

Með setningu laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, átti að treysta yfirtökuvarnir sparisjóðanna, m.a. með því að kveða á um það við hvaða aðstæður sparisjóðsstjórn skuli heimila framsal á virkum eignarhlut, að tengdir stofnfjáreigendur geti ekki farið með yfir 5% heildaratkvæðamagns í sparisjóði og að sparisjóður verði að breyta rekstrarformi sínu í hlutafélag áður en til samruna við aðrar tegundir fjármálafyrirtækja kemur. Það markmið laganna að treysta yfirtökuvarnir sjóðanna virðist ekki hafa náðst. Fjölmargir sparisjóðir hafa verið hlutafélagavæddir undanfarið þó að enn séu til örfáir sparisjóðir sem eru reknir á grundvelli þeirrar hugsunar sem lagt var upp með við stofnun þeirra. Má þar sem dæmi nefna sparisjóði Hólmavíkur, Þingeyinga og Bolungarvíkur. Þeir geta þó verið fleiri.

Sparisjóður sem hverfur frá markmiðum sínum og samfélagslegri umgjörð, svo sem með því að vera breytt í hlutafélag, á að mati flutningsmanns ekki að geta kallast sparisjóður. Er því lagt til í frumvarpinu að óheimilt verði að nota nafnið „sparisjóður“ með öðrum orðum eða skammstöfunum í firmaheiti eins og sparisjóður hf. enda eru skýr ákvæði í samþykktum sparisjóðanna um það hvernig leggja skuli sparisjóði niður ef ekki er vilji til að starfrækja þá áfram í sínu félagslega formi. Við breytingu á sparisjóði í hlutafélag skulu stofnfjáreigendur samkvæmt lögunum eingöngu fá hlutafé í hlutafélaginu sem gagngjald fyrir stofnfjárhluti sína. Skal samanlagt hlutafé sem stofnfjáreigendur fá í sparisjóðnum enn fremur nema sama hlutfalli af hlutafé hans eftir breytinguna, endurmetið samkvæmt 67. gr. laganna.

Við höfum lagt fram tillögu hér á Alþingi um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki þar sem flutningsmenn eru auk mín hv. þingmenn Kolbrún Halldórsdóttir, Atli Gíslason, Þuríður Backman og Ögmundur Jónasson.

Tillagan um breytingar á lögum um sparisjóði er flutt sem frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki.

Í athugasemdum við greinarnar segir, með leyfi forseta:

„Hér er lagt til að heitið sparisjóður verði lögverndað, þ.e. að óheimilt verði að nota það með öðrum orðum eða skammstöfunum í firmaheiti. Hugtakið sparisjóður er órjúfanlega bundið við þær hugsjónir og starfsgrundvöll sem réðu við stofnun þeirra. Þessi breyting tengist því að með frumvarpinu er lagt til að ekki verði lengur hægt að breyta sparisjóði í hlutafélag og halda sparisjóðsheitinu heldur verði að nefna hann t.d. banka eða fjármálastofnun. Ef sparisjóði er breytt í hlutafélag er hann ekki lengur sparisjóður heldur einkavæddur banki á markaði enda byggist starfsemi hlutafélaga og banka á allt öðrum sjónarmiðum en sparisjóður gerir. Þannig verði t.d. ekki lengur unnt að nota heitið sparisjóðabanki eða sparisjóður hf. í heiti fjármálastofnana.“

Um 2. grein segir:

„Í greininni er lagt til að sparisjóði, sem breytt er í hlutafélag samkvæmt ákvæðum 73. gr., verði óheimilt að nota orðið „sparisjóður“ í heiti sínu. Tillaga þessi helgast af því að við breytingu á sparisjóði í hlutafélag breytist eðli rekstrarins svo mikið frá upphaflegu markmiði við stofnun sparisjóðs, sem og eignaraðildin og formið á rekstrinum, að nafnið verður alls ekki lýsandi fyrir starfsemina og í raun rangnefni. Þetta felur í sér að ef sparisjóður er sameinaður öðrum sparisjóði helst heitið óbreytt en ef stofnað er hlutafélag um rekstur sparisjóðs verður að nota orðið banki, fjárfestingarfyrirtæki eða eitthvað þess háttar í firmaheiti sem er lýsandi fyrir starfsemina.“

Um 3. gr. segir:

„Í samræmi við fyrri greinar frumvarpsins er lagt til að brott falli heimild Fjármálaeftirlitsins til að leggja stjórnvaldssekt á sparisjóð sem breytt hefur verið í hlutafélag og notar ekki orðið hlutafélag í heiti sínu.“

Með þessu eru síðan greinar bæði eftir þann sem hér stendur og einnig mjög ítarleg og góð grein sem birtist eftir Ara Teitsson sem er stjórnarformaður í Sparisjóði Þingeyinga sem er m.a. grunnurinn að þessum tillöguflutningi. Þar vitnar hann í skrif Magnúsar Sigurðssonar frá Gilsbakka í Borgarfirði sem lengi var formaður Sparisjóðs Mýrasýslu.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Af þeirri félagslegu hugmyndafræði sem sparisjóðir byggjast á leiðir líka að stofnfjáreigendur, sem nú eiga að lögum að standa að hverjum sparisjóði, eru engan veginn eigendur sjóðanna heldur trúnaðarmenn umhverfisins sem falið er að gæta þessa fjöreggs byggðanna. Ræki þeir hlutverk sitt eins og til er ætlast í þeirri hugmyndafræði verða sparisjóðirnir aldrei „fé án hirðis“. Þetta er mikilvægt að allir skilji.“

Ein af meginástæðunum fyrir því að ég legg þetta fram, herra forseti, er að ég tel afar brýnt að slegið verði skjaldborg um þá sparisjóði sem eftir eru þannig að þeir fái að heita sparisjóðir áfram og halda því heiti sínu. Ef breytt hefur verið um hlutverk og þeir yfirgefið þau markmið, gildi og forsendur sem þeir voru byggðir upp á þá er það félagsleg ákvörðun en þá er líka eðlilegt að viðkomandi skipti um nafn.

Ég sé að tími minn er að verða búinn, herra forseti, en ég vil árétta að ég tel mjög hættulegt það sem segir um samruna sparisjóðs við fyrirtæki og við lögðum fram tillögur um breytingar á því í nefndaráliti. Ég ítreka spurningu mína til hv. formann nefndarinnar hvort það sé áfram skilningur hans að heimilt sé að sparisjóður renni saman við fyrirtæki.