135. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2008.

breyting á lögum er varða verðbréfaviðskipti.

538. mál
[14:12]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að fylgja þessu með stöðu sparisjóðanna enn betur eftir í máli mínu. Ég viðurkenni það alveg að mér er staða þeirra mikið hjartans mál og hygg að sama gildi um fleiri. Mörgum finnst sárt hvernig græðgisvæðing fjármálageirans hefur vaðið yfir sparisjóðina og sparisjóðahugsjónirnar vítt og breitt um landið. Það eru jafnvel sömu aðilar og núna leita til ríkissjóðs um lán eða ábyrgð fyrir starfsemi sinni þannig að innstæðan sem þeir notuðu til þess að komast yfir þessar fjármálastofnanir vítt og breitt um landið hefur ekki verið mikil en það er hægt að leika sér svoleiðis með annarra fé.

Ég legg áherslu á að það eru að vísu bara örfáir sparisjóðir eftir sem í rauninni starfa áfram á hugsjónagrunni sparisjóðanna en þeir eru mikilvægir fyrir sína staði og starfsemi þar og okkur ber skylda til að verja þá. Við höfum mátt horfa upp á það núna hvernig einstakir fjármálamenn hafa vaðið um landið eins og eldur yfir akur til að komast yfir þessar samfélagslegu eignir. Þetta er tiltölulega fámennur hópur að vísu en það er eins og menn hafi skipt landinu á milli sín þegar maður fylgist með hvernig vaðið er fram. Þá eru boðin gylliboð í stofnbréfin sem var upphaflega stofnað til að vera bakhjarl sparisjóðanna en ekki til að vera eigendum sínum til fjárhagslegs ávinnings. Allt í einu koma í þau tilboð á uppsprengdu verði frá þessum aðilum sem ætla sér að komast yfir sjóðina. Þetta hefur verið óheillavænleg þróun og það sem meira er, það hefur ekki verið mikinn stuðning að fá hjá Fjármálaeftirlitinu í þessum efnum. Ég minnist þess þegar gerð var yfirtökutilraun á ákveðnum sparisjóði í Skagafirði af ónefndum aðilum og nokkrir almennir sparisjóðseigendur sóttu til Fjármálaeftirlitsins sem úrskurðaði yfirtökuna ekki ólöglega og þeir þurftu að sækja mál sitt til Hæstaréttar. Þetta hefur í sumum tilvikum gerst æ ofan í æ þannig að hinn almenni eigandi sparisjóðanna virðist eiga litla möguleika á að sækja sér stuðning til Fjármálaeftirlitsins, þvert á móti. Með frumvarpi því sem við vinstri græn höfum lagt fram eru greinar og umfjöllun sem lúta að því.

Hér í lokin, herra forseti, vil ég lesa upp ágæta grein eftir Ara Teitsson, sem er stjórnarformaður Sparisjóðs Suður-Þingeyinga. Hann hefur staðið þétt að sparisjóðahugsjóninni og lagt tillögum okkar lið. Greinin birtist í Fréttablaðinu 24. ágúst 2007 og þar stendur, með leyfi forseta:

„Sparisjóðirnir hafa verið nokkuð í umræðunni að undanförnu. Viðskiptaráð telur þá staðnaða og á fallanda fæti, deilur hafa verið um formbreytingar Sparisjóðs Skagafjarðar, SPRON er að breytast í öflugt hlutafélag og eftirspurn er eftir stofnfjárhlutum margra sparisjóða.

Aukinn áhugi á sparisjóðunum á sér mjög eðlilegar skýringar þ.e. að rekstur þeirra hefur almennt gengið vel á undanförnum árum, þeir hafa vaxið mjög að umfangi og eigin fé og veita viðskiptavinum betri þjónustu en aðrar fjármálastofnanir. Ef til vill stafar gremja Viðskiptaráðs ekki síst af því að augljóst er af árangri sparisjóðanna að unnt er að reka fjármálastofnanir með góðum árangri í öðru formi en sem hlutafélag.

Eðli og tilgangi sparisjóðanna er vel lýst af fyrrverandi stjórnarformanni Sparisjóðs Mýrasýslu, Magnúsi Sigurðssyni á Gilsbakka, í formála bókar um 90 ára sögu Sparisjóðs Mýrasýslu sem út kom árið 2003, en þar segir Magnús m.a.: „Mestu máli skiptir þó að hér má lesa bæði með beinum orðum en ekki síður milli línanna að sparisjóðurinn er af grunni risinn sem félagsleg stofnun. Honum var og er ætlað það hlutverk að þjóna héraðinu með því að ávaxta aflögufé manna í þörfum verkefnum fyrirtækja og einstaklinga í héraði. Hann hefur því engan veginn eðli hlutafélagsbanka sem reknir eru til ábata fyrir eigendur hlutafjár. Samskipti hans við einstaklinga og fyrirtæki hafa jafnan mótast af þessari hugsun.“

Um stofnfé sparisjóðanna segir Magnús: „Af þeirri félagslegu hugmyndafræði sem sparisjóðir byggjast á leiðir líka að stofnfjáreigendur sem nú eiga að lögum að standa að hverjum sparisjóði eru engan veginn eigendur sjóðanna heldur trúnaðarmenn umhverfisins sem falið er að gæta þessa fjöreggs byggðanna. Ræki þeir hlutverk sitt eins og til er ætlast í þeirri hugmyndafræði verða sparisjóðirnir aldrei „fé án hirðis“ — eins og sumir hafa haft á orði hér á þingi. „Þetta er mikilvægt að allir skilji.“

Vert er að hugleiða frekar stöðu og hlutverk sparisjóða á landsbyggðinni. Einkavæðing og fénýting síðustu ára hefur ekki reynst landsbyggðinni heilladrjúg. Hún hefur í flestum tilfellum fært fyrstu eigendum fénýtingarinnar mikla fjármuni en síðari notendur þurfa síðan að bera kostnaðinn af mikilli fjárbindingu. Má þar nefna fénýtingu fiskveiðikvóta og mjólkurkvóta, sölu grunnnets fjarskipta og sala ríkisbankanna hefur ekki bætt þjónustu þeirra á landsbyggðinni.

Fénýting eigin fjár sparisjóðanna í þágu stofnfjáreigenda, sem viðskiptaráð virðist telja sjálfsagða, mun með sama hætti leiða af sér mikla fjárbindingu sem bera þarf kostnað af. Nálægð við fjármálaþjónustu og aðgangur að lánsfé er forsenda atvinnu og mannlífs í hverri byggð. Þessa þjónustu hafa sparisjóðirnir veitt hver á sínu starfssvæði.

Er ekki eðlilegt að þeir sem notið hafa þjónustu Sparisjóðs Mýrasýslu eða annarra sparisjóða geri kröfu um að það rekstrarform sparisjóðanna sem reynst hefur vel í 100 ár eigi völ á að lifa í friði og viðurkennt sé að það hefur kosti ekki síður en græðgi og fénýting sem rekið hefur áfram aðila á fjármálamarkaðnum síðustu missirin?

Herra forseti. Þetta er ein af meginástæðum fyrir því að við, nokkrir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, flytjum mál um að slegin verði skjaldborg um sparisjóðina, að heitið sparisjóður sem var bundið við þetta form, þessa ímynd, þessar hugsjónir, verði lögverndað og aðilum sem hafa breytt yfir í annað form, svikið eða farið frá hugsjónum sparisjóðanna, verði ekki gert heimilt að bera það nafn, enda eru þeir ekki lengur sparisjóðir í þeirri merkingu.

Við sjáum það núna í þeim breytingum sem hafa verið á fjármálaumhverfi landsmanna að bankarnir eru einmitt að loka útibúum sínum og ef ekki væri fyrir þessa litlu sparisjóði víða um land þá væri þar engin fjármálaþjónusta. Þeir sparisjóðir sem hafa fengið að vera í friði fyrir græðgisöflum samfélagsins standa sig vel, þeir eru áfram trúir sinni þjónustu, umhverfi sínu og umbjóðendum. En hins vegar eru þeir sparisjóðir sem hafa orðið græðginni að bráð, verið yfirteknir af græðgisöflunum, aftur í miklum vanda og íbúar þeirra svæða lenda í þeim örlögum. Þess vegna legg ég áherslu á það, herra forseti, í þeim breytingartillögum sem ég flyt hér ásamt fjórum öðrum þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að heitið sparisjóður verði lögverndað fyrir sparisjóðina og að ekki megi versla með það.

Ég minnist þess að í viðtali við bankastjóra Kaupþings þá sagði hann að það væri svo gott að kaupa SPRON, það væri svo mikið verðgildi í sparisjóðsheitinu, í sparisjóðahugmyndinni. En var ætlunin að fara að reka það sem sparisjóð? Nei, en hins vegar var hægt að gera sér verð, það var hægt að fénýta velvildina sem býr á bak við sparisjóðsheitið. Er það sanngjarnt að menn geti farið og yfirtekið, komist yfir ímyndir sem þeir gera síðan ekkert með annað en að fénýta þær?

Þess vegna legg ég áherslu á það, herra forseti, í breytingartillögum okkar um sparisjóðina að sparisjóðsheitið verði lögverndað, það verði bundið við þá sparisjóði sem starfa eftir þeirri ímynd og hugsjónum og verkefnum sem þeir settu sér upphaflega. Ef við samþykkjum það á þessu þingi væri það sparisjóðunum mikill styrkur.