135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

símhleranir á árunum 1949 til 1968.

[18:05]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er grundvallaratriði í lýðræðissamfélagi að heiðarlegt fólk þurfi ekki að sæta símhlerunum yfirvalda vegna stjórnmálaskoðana sinna. Það gerðist þó ítrekað á Íslandi í kalda stríðinu og er nú fullupplýst. Það er því mikilvægt að hæstv. dómsmálaráðherra ítreki að viðhorf dómsmálayfirvalda til símhlerana séu breytt frá því sem þá var. Það er mikilvægt vegna þess að við sem sitjum í þessum sal höfum undirritað drengskaparheit að stjórnarskránni og ákvæðum hennar um friðhelgi einkalífsins. Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands er æðsta stofnun okkar og það er skylda okkar að standa vörð um mannréttindaákvæði hennar.

Á miðopnu Morgunblaðsins í vikunni rekur Kjartan Ólafsson þær hleranir sem sneru að 32 heimilum á árum kalda stríðsins. Þar var aðeins einu sinni vitnað til beiðni lögreglunnar, aðeins tvisvar sinnum vitnað til lagaheimilda. Enginn rökstuddur grunur um saknæmt athæfi þeirra sem í hlut áttu var fram færður. Engin gögn eru til um hleranirnar.

Enn alvarlegra verður málið fyrir það að 12 alþingismenn og ráðherrar sættu þessu sem þó eiga að njóta sérstakrar friðhelgi af hálfu yfirvalda og hafa sérstakt svigrúm til stjórnmálalegra athafna. Kallað er eftir afsökunarbeiðni. Hæstv. dómsmálaráðherra hefur sagt að hann sjái ekki efni til þess og við hljótum að spyrja hvort hann sjái aðra leið til að ljúka þessu máli gagnvart þeim sem í hlut áttu.

Kalda stríðinu er lokið og hér er ekki verið að leita að sökudólgum. En það þarf að ljúka þessum málum gagnvart þeim sem á var brotið. Dómsmálaráðherra segir að þetta fólk hafi átt góð samskipti á eftir. Auðvitað, þeir sem hleraðir voru vissu ekki af því. Hann vísar til þess að menn geti leitað réttar síns. En hvernig mega þeir gera það þegar þeir eru fyrst upplýstir um málið þegar það er fyrnt?

Hann segir að sagan hafi fellt sinn dóm. Já, heiðarlegt fólk sem barðist fyrir þjóðfrelsi og jöfnuði í samfélagi sínu sætti því að friðhelgi einkalífs þess var rofin án þess að rökstuddur grunur væri um saknæmt athæfi af þess hálfu. Dómsmálayfirvöld hljóta því með einhverjum hætti að þurfa að jafna þá reikninga.

En við hljótum líka að spyrja hvort hleranir hafi farið fram eftir 1991 því að þá lauk rannsókninni. Hvort þeim hafi verið beitt í svipuðum tilfellum eins og í Falun Gong málinu, vegna náttúruverndarmótmæla og annarra slíkra hluta. Hvort vísbendingar séu um að hleranir hafi farið fram án dómsúrskurðar. Kastljós Ríkissjónvarpsins upplýsti til að mynda að ólögmætum eftirfararbúnaði hafi verið beitt af hálfu lögreglu nýverið og það gefur auðvitað tilefni til þess að spyrja hvort ólögmætum aðferðum hafi verið beitt án dómsúrskurðar. Við hljótum að inna hæstv. ráðherra eftir því hvernig aðhald og eftirlit með þessari starfsemi sé tryggt, hvernig lögum sé nú skipað. Þar sem ráðherrann hefur iðulega lýst því yfir að hann telji efni til að standa betur að löggjöf um þessa þætti í starfsemi lögreglunnar vil ég inna hann eftir því hvað líði hugmyndum hans um slíka löggjöf.

Um allt þetta hljótum við að spyrja vegna þess að það var ekki bara nauðsynlegt á tímum kalda stríðsins að standa vörð um friðhelgi einkalífsins. Okkur er það líka mikilvægt og nauðsynlegt í dag. Það er mikilvægt að við sendum skýr skilaboð, þó að þetta mál varði fortíðina, inn í framtíðina um að við tökum það grafalvarlega, Íslendingar, ef friðhelgi einkalífs heiðarlegs fólks er rofin af stjórnvöldum. Það eru þau skilaboð sem stjórnvöld morgundagsins þurfa að hafa alveg klár frá okkur sem erum uppi nú á dögum.