135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

frístundabyggð.

372. mál
[17:12]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki að draga í land. Ég studdi frumvarpið eins og það kom fram en er enn þá meiri stuðningsmaður þeirrar niðurstöðu sem við höfum komist sameiginlega að, því mér finnst skipta mjög miklu máli að um þessa lagaumgerð sé bærileg sátt og það hefur tekist.

Varðandi rétt handhafa einkaeignar má segja að hér sé um að ræða samspil tveggja eigna. Annars vegar lands og hins vegar húss sem reist er á landareigninni og spurningin snýst um það að tryggja einhvers konar jafnræði þarna á milli, að einn stilli ekki öðrum upp við vegg. Og ég tel að það hafi gengið bærilega að ná því fram með þessu frumvarpi og þeirri niðurstöðu sem nú liggur fyrir.