135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[18:24]
Hlusta

Frsm. minni hluta menntmn. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, við erum þeirrar skoðunar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að ýmsar varnir séu að bresta í varðstöðunni um velferðarsamfélagið og menntakerfið af því að hv. þingmenn Samfylkingarinnar standa ekki nægilega vel í lappirnar og standa ekki nægilega vel við þau prinsipp sem þeir fóru fram með í síðustu kosningum og þau prinsipp sem flokkurinn segist vera grundvallaður á. Þó að hv. þm. Katrín Júlíusdóttir vilji vel og segist ætla að fylgjast afskaplega vel með framkvæmdinni veit ég sem er, og við eigum að vita það öll sem hér erum inni, að það er ekki á færi eins þingmanns að fylgjast svo vel með því að farið verði að einni setningu í nefndaráliti þegar texti laganna segir annað — þá er nú lítið hald í prinsippunum, hæstv. forseti.

Eða hvernig ætla hv. þingmenn Samfylkingarinnar að tryggja það eftirlit sem þarf til þess að stefnumótun Háskóla Íslands, sem grundvölluð er á samþykktunum frá síðasta ári, nái fram að ganga? Við sáum ekki næga eftirfylgni hvað það varðaði í vinnslu frumvarpsins, við eigum eftir að fá að fylgjast með Samfylkingunni nú á næstu missirum. Það verður spennandi að sjá næstu fjárlög. Hvernig ætlar Samfylkingin að tryggja að samkeppnisstaða opinberu háskólanna verði með viðunandi móti án þess að innleidd verði skólagjöld? Samkeppnisstaðan er skert, einkaskólarnir geta boðið starfsfólki sínu betri kjör, nemendum sínum betri þjónustu, nemendurnir fá að auki styrk í gegnum námslánin hér sem eru niðurgreidd að hluta. (Gripið fram í.) Það eru starfsmannalögin sem hindra það, hæstv. forseti, já, já — Samfylkingin vill sennilega afnema starfsmannalögin. (Gripið fram í.)

Samkeppnisstaða háskólanna er skert. Ég vil fá að sjá að einhver vilji sé á bak við stóru orðin hjá Samfylkingunni og að samkeppnisstaða háskólanna verði leiðrétt (Gripið fram í.) án þess að innleidd verði skólagjöld. Það er verið að veikja varnir Háskóla Íslands og opinberu háskólanna með þeim tillögum sem hér eru (Forseti hringir.) lagðar fram og breytingartillögur meiri hluta nefndarinnar ganga ekki nægilega langt til þess að leiðrétta það.