135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[18:39]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er ekki andsvar í þeirri skilgreiningu, þetta er meðsvar. Við þingmenn Framsóknarflokksins greiddum atkvæði með því að það kæmi ákvæði um mannréttindi inn í 2. gr. frumvarpsins til laga um leikskóla. Við erum enn þá á þeirri skoðun. Ég held að það fari afar vel á því að eitt af meginmarkmiðum uppeldis og kennslu í leikskólum skuli vera að rækta hæfileika barna til tjáningar og sköpunar í þeim tilgangi m.a. að styrkja sjálfsmynd þeirra og heilbrigðisvitund, skilning og virðingu fyrir mannréttindum, eins og lagt er til að hér bætist við, og svo öryggi og hæfni til mannlegra samskipta.

Ég skil ekki þá ákvörðun meiri hluta nefndarinnar að styðja ekki þessa breytingartillögu. Hún var mikið rædd og mikið var rætt um mannréttindi í nefndinni og um þessa grein, hvað ætti að vera þar inni. Á milli 2. og 3. umr. var þetta sérstaklega tekið á dagskrá þannig að það er ekki hægt að beita því fyrir sig að ekki hafi farið fram umræða. Mér finnast daprar skýringar hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur, að hún geti ekki stutt tillögu okkar af einhverjum lagatæknilegum ástæðum, hún telji að þetta eigi heima einhvers staðar annars staðar. Ég er henni hjartanlega ósammála. (Gripið fram í.)Tæknikrati, það er kannski ágætis orð.

Hér eru einnig ágætis ákvæði um rétt nemenda og nemendur með sérþarfir sem ég hef áður lýst yfir að ég styðji.