135. löggjafarþing — 114. fundur,  29. maí 2008.

samningur um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum.

622. mál
[22:53]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Frú forseti. Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á samningum milli Íslands, Færeyja, Noregs, Rússlands og Evrópubandalagsins um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 2008 sem gerðir voru í London 12. nóvember síðastliðinn.

Í samræmi við ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins og fyrri ákvörðun aðila um nýtingarstefnu til lengri tíma er í fimmhliða samkomulagi aðila ákveðið að heildaraflamark til norsk-íslenska síldarstofnsins á þessu ári skuli vera 1.518.000 lestir. Veiðiheimildir skiptast þannig milli aðila:

Í hlut Íslands koma 220.262 lestir, í hlut Færeyja 78.329 lestir, í hlut Noregs 925.980 lestir, í hlut Rússlands 194.607 lestir og í hlut Evrópubandalagsins koma 98.822 lestir.

Í samkomulaginu er gert ráð fyrir að heimilt verði að færa hluta kvóta milli ára til að skapa sveigjanleika við nýtingu veiðiheimildanna. Hver aðili getur fært ónotaðan hluta veiðiheimildar, allt að 10% af þeim kvóta sem honum er úthlutað fyrir þetta ár yfir á þann kvóta sem honum verður úthlutað fyrir næsta ár. Hver aðili getur einnig heimilað skipum sínum að veiða allt að 10% umfram hinn úthlutaða kvóta á þessu ári og skal þá það magn sem veitt er umfram kvótann fyrir þetta ár, dregið frá kvóta aðilans fyrir árið 2009.

Samhliða hinu fimmhliða samkomulagi voru gerðir ýmsir tvíhliða samningar milli aðilanna, einkum um heimildir til síldveiða í lögsögu hvers annars á á þessu ári. Samkvæmt tvíhliða samkomulagi milli Íslands og Noregs fá íslensk skip ótakmarkaðan aðgang að fiskveiðilögsögu Jan Mayen og mega veiða 40.986 lestir af kvóta Íslands í efnahagslögsögunni við meginland Noregs norðan 62°N. Norsk skip fá heimild til að veiða 106.734 lestir í íslenskri lögsögu. Veiði íslensk fiskiskip minna en 30.360 lestir af síld í efnahagslögsögu Noregs á þessu ári mun Noregur færa 1.518 lestir af síldarkvóta sínum á næsta ári til Íslands.

Samkvæmt tvíhliða samkomulagi milli Íslands og Rússlands er rússneskum skipum veitt heimild til að veiða allt að 6.539 lestir á takmörkuðu svæði í austurhluta efnahagslögsögu Íslands.

Áréttað skal að í samningi milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2008, sem ég gerði grein fyrir áðan, er kveðið á um að skipum hvors aðila verði heimilt að veiða allan sinn kvóta í norsk-íslenskri síld í lögsögu hins.

Fimmhliða samkomulaginu og tvíhliða samningnum á grundvelli þess var beitt til bráðabirgða frá og með 1. janúar síðastliðnum.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanríkismálanefndar.