135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[17:57]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hvað varðar hið fyrra aftur tel ég að alltaf hljóti að vera uppi, bæði hjá ríkisstjórninni og þinginu öllu, hugleiðingar um það hvernig peningamálunum yrði best komið fyrir og þau markmið sem þar eru sett.

Enn og aftur vil ég bara ítreka að menn verða að fara mjög varlega þegar þeir tala um þessa þætti. Það er ekki lengur svo að við séum bara lokað hagkerfi eins og var hér á árum áður þar sem einu skipti hvað við sögðum, menn höfðu ekki áhuga á því. Nú skiptir öllu máli hvað hinn alþjóðlegi fjármálamarkaður heldur um hvernig okkur takist að vinna með peningamálastefnuna.

Ég hef litið svo á, a.m.k. fram að þessu, að Seðlabankinn hafi verið samkvæmur sjálfum sér í sinni skoðun. Ég hef bara ekki verið sammála honum. Það er samkvæmni í því hvernig hann nálgast það vandamál og það verkefni sem bankinn (Forseti hringir.) stendur frammi fyrir, en það þarf ekki að þýða að maður sé sammála því. (Gripið fram í.)