135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

ársskýrsla Ríkisendurskoðunar 2007.

626. mál
[16:10]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér ársskýrslu ríkisendurskoðanda fyrir árið 2007. Eins og fram hefur komið í máli hv. formanns fjárlaganefndar og einnig varaformanns fjárlaganefndar, sem hér hafa talað, skilaði fjárlaganefnd sameiginlegu áliti um þessa skýrslu og hefur formaður nefndarinnar, hv. þm. Gunnar Svavarsson, rakið það álit.

Ég hef svo sem ekki miklu við það að bæta annað en að hér er fyrst og fremst um ársskýrslu stofnunarinnar sem slíkrar, Ríkisendurskoðunar, að ræða. Við fjöllum sérstaklega um skýrslur og álitsgerðir sem koma frá stofnuninni og hefur verið gert með misjöfnum árangri eins og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson vék að. Ég tek undir það að því fer fjarri að Alþingi taki nægjanlega alvarlega ábendingar og aðfinnslur ríkisendurskoðanda. Allt of oft hafa þær verið hafðar að engu sem kemur til af því mikla og sterka framkvæmdarvaldi, ráðherraræði, sem Alþingi býr við. Við höfum ítrekað rekið okkur á og fundið fyrir beinum afskiptum ráðherra af málum sem Ríkisendurskoðun hefur verið að vinna að og skilað um áliti til fjárlaganefndar, svo að dæmi sé tekið.

Ég held að rjúfa verði þessa hörðu, sterku og nánu aðkomu framkvæmdarvaldsins að eftirlitsvinnunni sem Ríkisendurskoðun vinnur fyrir Alþingi. Það verður að rjúfa sambandið sem hefur að mínu mati verið allt of náið. Ég vil taka undir orð fráfarandi ríkisendurskoðanda í inngangi sínum í formála skýrslunnar. Hann leggur áherslu á að sjálfstæði og óhæði eftirlitsstofnunar eins og Ríkisendurskoðunar, jafnt í ásýnd sem í reynd, sé best tryggð með fjárhagslegu sjálfstæði hennar — og gagnvart þeim sem hún endurskoðar, þ.e. framkvæmdarvaldinu. Ég tek einnig undir orð fráfarandi ríkisendurskoðanda um trúverðugleika ríkisendurskoðanda í sínum störfum. Það er gríðarlega mikilvægt. Það er bundið í lögum og samþykktum um Ríkisendurskoðun að hún skuli vera sjálfstæð, eins og segir í skýrslunni, með leyfi forseta:

„Ríkisendurskoðun er sjálfstæð og óháð stofnun sem starfar í umboði Alþingis. Henni er ætlað að endurskoða ríkisreikning og reikninga þeirra stofnana og fyrirtækja sem eru að hálfu eða meira í eigu ríkisins, rekin eru á ábyrgð þess eða sinna lögbundinni þjónustu eða öðrum verkefnum gegn greiðslu eða styrkjum úr ríkissjóði.“

Sjálfstæði Ríkisendurskoðunar er síðan ítrekað.

Það var einmitt þess vegna sem allmargir þingmenn, líklega úr öllum flokkum nema Sjálfstæðisflokknum, fluttu frumvarp til laga nú á vordögum um að Alþingi skyldi kjósa ríkisendurskoðanda — og hann fengi þannig enn sjálfstæðari stöðu gagnvart framkvæmdarvaldinu og afmarkaðri stöðu gagnvart Alþingi, svipað og umboðsmaður hefur. Enda er það tekið fram í greinargerðinni sem fylgdi því frumvarpi í vor, og áhersla lögð á það, að Alþingi beri að taka allar ákvarðanir um aðgerðir sem séu til þess fallnar að styrkja sjálfstæði ríkisendurskoðanda.

Í þessu felst ekki vantraust á þann ríkisendurskoðanda sem hefur verið ráðinn og er hann hér með boðinn velkominn til starfa. En það mun vafalaust verða hans vandi líka að standa vörð um sjálfstæði og trúverðugleika og það að geta sinnt þeim verkefnum sem ætlunin er að vinna.

Fráfarandi ríkisendurskoðandi minntist á hversu umhverfið hefði breyst á síðastliðnum árum, ekki væri um beinar ríkisstofnanir að ræða. Í sjálfu sér væri einfalt og gott að hafa eftirlit með hreinum opinberum stofnunum. En sú pólitík sem hefur verið rekin á undanförnum árum af ríkisstjórninni, markaðsvæðingarríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, að stofna hlutafélag um almannaþjónustu, hvort sem það heitir Íslandspóstur, Ríkisútvarpið, Flugstoðir o.s.frv. — rekur almannaþjónustu í einkahlutafélagi þó svo að ríkið eigi það. Miklu erfiðara er að veita því eðlilega endurskoðun og aðhald eins og ríkisendurskoðanda ber að gera lögum samkvæmt. Það sama á við um útvistun sem kallað er, það er markaðsvæðing eða einkavæðing á einstökum þjónustuverkefnum sem hafa verið útvistuð til einkaaðila, en sem ríkissjóður og Alþingi bera engu að síður ábyrgð á og þar af leiðandi líka ríkisendurskoðandi. Þessi markaðsvæðingarstefna á almannaþjónustu og verkefnum ríkisins gerir enn ríkari og meiri kröfur til eftirlits af hálfu ríkisendurskoðanda. Ég hef ekki verið sammála þessari miklu markaðsvæðingarstefnu á almannaþjónustu en vil undirstrika hversu mikilvægt sjálfstæði ríkisendurskoðanda er.

Frú forseti. Ég þarf ekki að hafa um þetta öllu fleiri orð. Ég þakka fráfarandi ríkisendurskoðanda fyrir störf í þágu Alþingis á undanförnum árum og vil bjóða nýjan ríkisendurskoðanda, Svein Arason, velkominn til starfa. Ég vænti góðs samstarfs við hann og að hann standi einnig undir þeim trúnaði, því óhæði og sjálfstæði sem ríkisendurskoðandi verður að hafa gagnvart Alþingi.