135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[15:46]
Hlusta

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að spyrja hv. þm. Þuríði Backman nokkurra spurninga í kjölfar ræðu hennar. Reyndar sagði hún að hún hefði enn þá ekki haft tök á því að fara yfir öll efnisatriðin en mun þá væntanlega gera það í síðari ræðu þannig að það getur vel verið að ég spyrji um eitthvað sem mun koma fram þar.

Engu að síður, ég hef lesið nefndarálit vinstri grænna, þ.e. frá 1. minni hluta heilbrigðisnefndar, og ég verð að segja að mér finnst efni nefndarálitsins vera dálítið úr takti við frumvarpið. Ég get ekki betur séð en að nefndarálitið snúi fyrst og fremst að þeim ótta að eitthvað sé að gerast í heilbrigðiskerfinu sem ég get ekki séð að eigi við rök að styðjast þegar maður les frumvarpið og kynnir sér málið. Þótt ég sitji ekki í heilbrigðisnefnd hef ég reynt að kynna mér málið eins og kostur er.

Þess vegna langar mig að spyrja hv. þm. Þuríði Backman nokkurra spurninga: Finnst hv. þingmanni ekki eðlilegt að ríkisvaldið, með þá miklu fjármuni sem á hverju ári fara inn í heilbrigðiskerfið, reyni að nýta það fjármagn sem allra best og leita leiða til að gera það um leið og gæðin eru höfð í hávegum? Er hv. þingmaður á þeirri skoðun að ekki sé hægt að treysta stjórnvöldum í heilbrigðiskerfinu til að taka ákvarðanir með hagsmuni sjúklinga fyrir brjósti og um leið gæta að rekstri heilbrigðiskerfisins? Hvar stendur í þessu ágæta frumvarpi hæstv. heilbrigðisráðherra að verið sé að einkavæða heilbrigðiskerfið? Ég ætla samt ekki að fara að deila við hv. þingmann um skilgreiningar á því enda kemur það ekki málinu kannski ekki við í þessu samhengi.

Og að lokum: Var hv. þingmaður sammála því að gera samning við sjúkrahúsið á Akureyri um bæklunaraðgerðir sem gerður var á liðnum vetri?