135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[15:52]
Hlusta

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Ásta Möller) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tók eftir því að hv. þingmaður svaraði ekki spurningu hv. þm. Ólafar Nordal um bæklunarlækningar á FSA þannig að ég ítreka þá spurningu hér og bið um svar við henni. En það segir á blaðsíðu 5 í nefndaráliti 1. minni hluta heilbrigðisnefndar, með leyfi forseta:

„Pollock staðhæfir að samkvæmt rannsóknum og fenginni reynslu hafi það sýnt sig að sanngjarnasta, framsæknasta og hagkvæmasta leiðin til að standa straum af útgjöldum til heilbrigðismála sé í gegnum almennt tekjuskattskerfi. Það er slíkt félagslegt heilbrigðiskerfi sem við Íslendingar búum við í dag og nú er verið að grafa undan.“ Og nú er verið að grafa undan!

Ég held að ég geti ekki verið meira sammála en þessari konu hérna sem talaði um félagslegt heilbrigðiskerfi. Við erum með félagslegt heilbrigðiskerfi og munum halda því áfram. Það eru ekki nein áform uppi um að gera neinar breytingar á fjármögnun í heilbrigðisþjónustu, að hún sé fjármögnuð áfram af opinberu fé að mestu leyti.

Það eru heldur engin áform uppi um það að auka hlutdeild sjúklinga í kostnaði. (Gripið fram í.) Og ég mun fara í það nánar á eftir að þær tölur sem koma hérna fram í nefndaráliti 1. minni hluta heilbrigðisnefndar um kostnaðarhlutfall heimilanna í heilbrigðisútgjöldum eru alrangar.

Mig langar að segja að þarna er ég sammála fræðimanninum, hin félagslega heilbrigðisþjónusta er hið eftirsóknarverða form og þetta frumvarp breytir engu þar um. Ekki neinu. Mér þætti hins vegar mjög gott að heyra svar hv. þingmanns um bæklunarlækningar á Akureyri. Ef hún samþykkir þær, hvað sér hún þá athugavert við það að gera samninga við einhverja aðra aðila, sjálfseignarstofnanir (Forseti hringir.) eða einhverja aðra aðila, um slíkar lækningar?