135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

störf þingsins.

[10:42]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Það mál sem hv. þm. Einar Már Sigurðarson vekur hér athygli á er fyrir dómstólum eins og hann gat um og dómstólarnir hljóta auðvitað að dæma á grundvelli gildandi laga um þau álitamál sem þar kunna að vera uppi. Ég get í sjálfu sér ekki tjáð mig neitt frekar um það á þessum vettvangi. Það mál er rekið fyrir dómstólum og mun væntanlega hljóta þar niðurstöðu innan skamms og það hlýtur að gerast á grundvelli gildandi laga.

Hins vegar heyrist mér að þarna kunni að vera á ferðinni áhugaverðar eignarréttarlegar spurningar sem ástæða kann að vera að fara í. Lögin sem hv. þingmaður vísaði til, landskiptalögin frá 1941, eru auðvitað töluvert komin til ára sinna og það kann vel að vera tilefni til að fara yfir þau og kanna hvort ástæða sé til þess að breyta þeim með einhverjum hætti. Það þarf þá að líta á framkvæmd þeirra og hvernig þau hafa verið túlkuð fyrir dómstólum og eins hvort þau samræmist með öllu þeim sjónarmiðum sem nú ríkja varðandi eignarréttarleg atriði. Ég held að það sé alveg tilefni til að allsherjarnefnd velti þessari spurningu fyrir sér og vil með engum hætti útiloka að það gerist, en ítreka að um einstök deilumál get hvorki ég né nefndin sem slík fjallað, þau verða rekin fyrir dómstólum.