135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

störf þingsins.

[10:50]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni ærleg svör hér. Ef marka má orð hans eru ekki fram undan neinar stórbreytingar á starfsemi Íbúðalánasjóðs. Það er í raun og veru þvert á það sem sjálfstæðismenn í þessu ríkisstjórnarsamstarfi hafa haldið fram og þar af leiðandi er ekki mikið að marka það sem forsætisráðherra hefur sagt í fjölmiðlum að undanförnu eða hæstv. fjármálaráðherra á síðustu vikum.

Eins og ég sagði hér áðan er í raun og veru lágmarkið að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands tali einum rómi í svo mikilvægu máli sem húsnæðismálin eru. En kannski er ekki hægt að gera kröfu um það því að þessi ríkisstjórn og þessir ráðherrar í ríkisstjórninni hafa í raun og veru tvær stefnur í svo mörgum málum. Það eru tvær stefnur í stóriðjumálum, tvær stefnur í umhverfismálum, tvær stefnur í húsnæðismálum, tvær stefnur í utanríkismálum og áfram má telja. Það er enginn stöðugleiki í þeim ráðherrum sem sitja í þessari ríkisstjórn. (Gripið fram í.)Og nú segir eini hæstv. ráðherrann sem er viðstaddur þessa umræðu, sem ég ætla að hrósa fyrir að vera við umræðuna, eini ráðherrann, hæstv. ráðherra Össur Skarphéðinsson, sem ég býð velkominn í salinn — hann er eini ráðherrann sem er viðstaddur þá mikilvægu umræðu sem hér fer fram, ég ætla að hrósa honum fyrir að vera vaknaður og mættur til vinnu því að þessi ríkisstjórn hefur verið sökuð um að vera nokkuð daufgerð. Það má sannarlega ekki segja um Össur Skarphéðinsson hér á þessum morgni.

Ég bið líka hæstv. ráðherra að bera þau tíðindi inn á borð ríkisstjórnarinnar að menn fari að taka sér tak og tala einum rómi í svo stóru máli sem húsnæðismálin eru. Ef ríkisstjórnin hefur ekki áttað sig á því hversu grafalvarleg staða er á þeim markaði og hversu nauðsynlegt það er að við búum við styrka ríkisstjórn sem talar einum rómi er hún ekki jarðtengd. Ég ætla þó að fullyrða að sá sem er næstur jarðtengingunni er trúlega hæstv. iðnaðarráðherra. (Gripið fram í: Já, það er ekkert annað.)