135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

umhverfismál.

664. mál
[12:26]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir að leggja þessa skýrslu fram. Það er vel til fundið hjá ráðherranum að gera það og gagnleg samantekt á þeirri uppbyggingu sem verið hefur í málaflokknum um langt árabil. Ég vil sérstaklega fá að nota tækifærið og þakka ráðherranum fyrir niðurlag skýrslunnar og þá ekki síst þá ágætu tilvitnuðu setningu sem hv. þm. Illugi Gunnarsson vék hér að áðan og las úr ræðustólnum og sneri að verkefnum dagsins.

Í náttúruverndarmálum geta unnist á þessu kjörtímabili gríðarlega stórir áfangar. Þegar í stjórnarsáttmálanum er skörulega gengið til verks og stór mikilvæg landsvæði tekin fyrir alla Íslendinga, náttúruperlur sem við unnum öll. Því er lýst yfir að þau séu frátekin, þau séu til verndunar og að ríkisstjórnin vinni að gerð áætlunar um vernd og nýtingu náttúru Íslands. Sú áætlun mun kannski ekki líta dagsins ljós fyrr en árið 2010 en þó á þessu kjörtímabili og fá afgreiðslu hér á Alþingi og tryggja að viðamikil og víðáttumikil landsvæði og mikilvægar náttúruperlur verði friðaðar til frambúðar. Mjög mikilvægur áfangi og gríðarlegur sigur næst í náttúruverndar- og umhverfisbaráttunni á þessu kjörtímabili með því. Ég vil líka halda til haga Vatnajökulsþjóðgarðinum sem er stofnaður á þessu kjörtímabili og er gríðarlegur áfangi í umhverfismálum á Íslandi.

Ég vil þakka hv. þingmönnum sem rætt hafa um skýrsluna fyrir þeirra mál en þó leyfa mér að gera athugasemdir við það með hvaða hætti forustumenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs tala um umhverfismálin í þinginu dag eftir dag. Rétt tveir dagar eru síðan formaður flokksins, Steingrímur J. Sigfússon, stóð hér og sagði að Vatnajökulsþjóðgarður væri ekki barn í brók. Hér kemur nú talsmaður flokksins í umhverfismálum, Kolbrún Halldórsdóttir, og segir okkur að umhverfisráðuneytið og umhverfismálin séu einhvers konar botnlangi sem skipti engu máli. Þetta sé svo ómerkilegt ráðuneyti af því að alls konar verkefni séu í öðrum ráðuneytum.

Það er ekki málaflokknum til framdráttar og ekki umhverfisvernd í landinu til framdráttar að tala með þessum hætti um umhverfismálin, um stofnanir sem sinna umhverfismálunum og um stóra áfanga í náttúruvernd eins og Vatnajökulsþjóðgarður er. Við eigum að leggja metnað okkar í að tala þennan málaflokk upp en ekki niður og beini ég því til þingmanna að hafa það í huga bæði í dag og aðra daga.

Ég vil einnig vísa algjörlega á bug þeim aðdróttunum sem fram komu í máli hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur í garð hæstv. umhverfisráðherra. Menn geta deilt á stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum, að meira hefði getað náðst fram eða að of langt sé gengið eða haft ýmsar skoðanir á því. En ég held að það sé fullkomlega ósanngjarnt af hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur að segja að hæstv. umhverfisráðherra hafi ekki staðið vaktina. Ég held þvert á móti að hæstv. umhverfisráðherra hafi staðið vaktina vel og dyggilega og þannig að eftir hafi verið tekið um land allt og stundum hrikt í. Það getur á köflum kostað býsna mikinn kjark að standa umhverfisvaktina, ekki síst á erfiðum tímum í efnahagsmálum eins og nú eru. Það held ég að hæstv. umhverfisráðherra, Þórunn Sveinbjarnardóttir, hafi sannarlega gert og fullkomlega ómaklegt sé af hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur að vega að henni og hennar starfi með þessum hætti.

Það mikilvægasta sem við eigum fram undan eru svo auðvitað loftslagsmálin. Það er stærsta verkefni heimsins alls. Þær hrikalegu afleiðingar af loftslagsmengun sem eru fullkomlega fyrirsjáanlegar og eru af manna völdum og við í heiminum verðum í sameiningu að takast á við. Það er mikilvægt að framganga Íslands í þeim viðræðum sé til sóma. Sú umræða hefur á löngum köflum verið afar undarleg svo að ekki sé meira sagt. Það er best fyrir heiminn að menga meira á Íslandi, segja sumir. Þeir virðast halda að Ísland sé eina landið í heiminum þar sem hægt sé að virkja endurnýjanlegar orkulindir. En hv. þingheimi til upplýsingar er það alls ekki svo. Þeir virðast halda að valkostirnir standi um það að reisa kolaorkuver í Kína eða vatnsaflsvirkjun á Íslandi en, hv. þingmenn, það er alls ekki svo.

Yfir helmingurinn af álverunum í heiminum er knúinn af vatnsaflsvirkjunum af því að þannig vill til að vatn rennur víðar í heiminum en á Íslandi og menn virkja vatn víðar í heiminum en á Íslandi. Ef einhver lætur sér detta í hug að ábyrgt alþjóðafyrirtæki eins og Alcoa, vandað í starfsaðferðum eins og við þekkjum af framgöngu þess hér, sé að velta því fyrir sér að byggja kolaorkuver í Kína eða álver á Húsavík þá held að það sé nokkuð mikill misskilningur. Slík fyrirtæki leita að leiðum til þess að byggja ábyrgar verksmiðjur og virkjanir hér eða annars staðar. Það kallar ekki á að við eigum að fórna umtalsverðum náttúrugæðum fyrir heiminn. Við þurfum ekki að fórna náttúruperlum okkar í þessu. En hitt eigum við sem er þekkingin til að hjálpa öðrum við að virkja endurnýjanlegar orkulindir í ríkari mæli og auðvitað má nýta þá þekkingu til að minnka hin hnattrænu áhrif.

Hættan í þessari nálgun, þeirri nálgun að við eigum að berjast fyrir ókeypis mengunarheimildum fyrir alþjóðleg stórfyrirtæki, er sú að hún gengur þvert gegn meginmarkmiðum baráttunnar gegn loftslagsmengun. Baráttan gegn loftslagsmengun gengur nefnilega út á það að alþjóðasamfélagið komi sér saman um að setja framleiðslunni í heiminum mörk, og að framleiðslan í heiminum þurfi að borga fyrir mengun. Ekki að hún fái ókeypis leyfi frá íslensku ríkisstjórninni til að menga loftslagið í heiminum meira.

Og hvers vegna er þetta gert? Þetta er gert til þess að þrýsta á hinar ýmsu framleiðslugreinar, m.a. álbræðslurnar í heiminum, um að nýta umhverfisvænni leiðir í starfsemi sinni. Meðan það kostar ekkert að menga og meðan menn geta fengið slíkar heimildir eins og þeim sýnist mun enginn iðnaður draga úr sinni mengun. En mengunin, til að mynda í áliðnaðinum, er ekki fasti. Mengun í áliðnaði fer verulega eftir því hvaða aðferðir eru notaðar og hægt er að fara ódýrar leiðir og hægt að fara dýrar leiðir. Hugmyndin í loftslagsmálum er sú að þjóðir heims komi sér saman um að láta það kosta að menga og hvetja þannig framleiðslugreinarnar til þess að draga úr mengun.

Í áliðnaðinum vita menn m.a. að hægt er að bræða ál með rafskautum sem ekki valda þeirri loftslagsmengun sem núverandi tækni gerir. Loftslagsbaráttan snýst um að þrýsta þannig á iðnaðinn og skapa honum hin almennu viðskiptalegu skilyrði að það borgi sig fyrir hann að innleiða umhverfisvænni tækni. Það gerum við ekki með því að kalla eftir séríslenskum ákvæðum um það að menn eigi endilega fá að menga meira á Íslandi af því það sé betra fyrir heiminn — það er bara vitleysa, góðir hálsar. Það er ekkert betra fyrir heiminn að gefa mönnum heimildir til þess að menga meira á Íslandi. Og það er beinlínis hættulegt ef við hefðum ætlað í þessum viðræðum að fara að leggja áherslu á okkar sérstöðu.

Þingheimur góður. Í heiminum eru 200 þjóðir. Hver og ein einasta hefur sérstöðu þó að við höldum stundum að við séum ein um það í heiminum að hafa sérstöðu. Ef þessar 200 þjóðir ætla allar að leggja áherslu á sérstöðu sína í þeim samningum sem fram undan eru er hætt við því að ansi mörg ár líði áður en samkomulag næst um það mikilvæga verkefni sem fram undan er, að takast á við vaxandi loftslagsmengun í heiminum.

Ég sé, virðulegur forseti, að tími minn er á þrotum. Ég þakka hæstv. ráðherra aftur fyrir greinargóða skýrslu og þingheimi fyrir ágætar umræður.