135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

umhverfismál.

664. mál
[14:27]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Umhverfisstefna Samfylkingarinnar, Fagra Ísland, er vafalaust ein mestu kosningasvik íslensks stjórnmálaflokks síðustu áratugi. Eitt stærsta mál síðustu alþingiskosninga voru umhverfismálin, hvort tækist að stöðva hina hömlulausu virkjana- og stóriðjustefnu ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Um þetta var tekist á, um þetta var kosið og Framsóknarflokkurinn, sem hafði birst sem ímynd stóriðjustefnunnar og hömlulauss álæðis og náttúruspjalla, galt afhroð. Skilaboð þjóðarinnar voru skýr. Vinstri hreyfingin – grænt framboð, sem hafði stigið á afdráttarlausa stefnu í umhverfismálum, nær tvöfaldaði fylgi sitt í kosningunum. Skoðanakannanir nokkru áður gáfu vísbendingar um að VG gæti allt að þrefaldað fylgið. Þegar Samfylkingin sá að tvískinnungurinn í málflutningi forustumanna flokksins í umhverfismálum fældi stóran hóp kjósenda frá var soðin upp í skyndi ný umhverfisstefna, Fagra Ísland. Þar var lofað fimm ára stóriðjuhléi. Út á þau dýru loforð voru þingmenn Samfylkingarinnar kosnir.

Nú blasir hins vegar við helgrimm aðför ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks að íslenskum náttúruperlum með stórvirkjunum og loforðum um nýjar álbræðslur. Þær álbræðslur eiga að fá forgang að allri virkjanlegri orku næstu árin. Nú þegar eru yfir 80% af raforkuframleiðslu landsmanna bundin í álverum. Skagfirðingar hafa barist hetjulega fyrir verndun jökuláa sinna, sama gera líka Sunnlendingar fyrir Þjórsá. Með samstilltu átaki í Skagafirði tókst að stöðva áform um stórfelldar virkjanir í jöklulánum í Skagafirði, Villinganessvirkjun stendur tilbúin á teikniborðinu.

Eitt af loforðum Samfylkingarinnar var verndun, friðun jökulánna í Skagafirði og Skjálfandafljóts. Nú hins vegar þegar fyrir liggur ákvörðun eða áform um álver á Bakka er alveg ljóst og kom fram þegar svokölluð staðarvalsnefnd var skipuð af Alcoa, Landsvirkjun og sveitarfélögum á Norðurlandi um val á stað fyrir álver, að það var skýrt kveðið á um það að sveitarfélögin yrðu að vera reiðubúin að verja virkjunarkostum sínum til álversins óháð hvar það væri. Það var alveg ljóst þá og er jafnljóst nú að tæplega 400 þúsund tonna álver mun krefjast orkunnar úr fallvötnum Skagafjarðar, úr Skjálfandafljóti og einnig hefur núna verið seilst í Jökulsá á Fjöllum.

Þegar tókst að stöðva virkjanaframkvæmdirnar í Skagafirði er farin önnur leið og núna er hafin línulögn yfir þveran Skagafjörð sem á að geta flutt raforkuna frá jökulánum í Skagafirði austur að Bakka. Þetta er hin grimma staðreynd, því miður. Ég verð að segja að sá ótrúverðugi málflutningur, sá tvískinnungur sem birtist af hálfu stjórnarflokkanna í virkjana- og stóriðjumálum, þar sem einu er lofað hér og öðru lofað þar, gengur ekki upp. Ég styð það að fram fari heildstætt mat á bæði orkuþörf og umhverfi væntanlegs og hugsanlegs álvers á Bakka á Tjörnesi. Þá kemur skýrt fram hvort þörf sé á að taka Skjálfandafljót og (Forseti hringir.) jökulárnar í Skagafirði. Það er þetta sem álbræðslusinnarnir óttast og vilja ekki. En ég krefst þess að það tekið verði heildstætt á málunum (Forseti hringir.) og jökulvötnin okkar varin, frú forseti.