135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

Viðlagatrygging Íslands.

651. mál
[16:33]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (andsvar):

Já, frú forseti, þetta var fín spurning. Við lögðum að sjálfsögðu mat á það eins og hægt var við þær aðstæður. Ég leitaði eftir því mati frá langreyndum forstjóra Viðlagatryggingar Íslands. Matið var á þann veg að þessi aðgerð mundi kosta sjóðinn eitthvað í kringum 100 milljónir. Það var gróft mat þeirra. Það var erfitt að meta það á því augnabliki hve tjónið væri mikið. Þeir voru rétt að byrja að meta það. Það var hins vegar hægt að slá á það út frá tjóninu árið 2000, margfalda það með íbúafjöldanum á umræddu svæði enda er það miklu þéttbýlla. Á þessu litla landsvæði, þar sem skjálftarnir riðu yfir, búa 10–11 þús. manns en miklu færri þar sem skjálftarnir riðu yfir árið 2000. Það var mat okkar að þessi lagabreyting mundi kosta plús/mínus 100 milljónir fyrir Viðlagatryggingasjóð sjálfan.

Hitt að lokum. Umræðan hefur farið um víðan völl. Mér fannst hv. þingmaður sneiða hjá því að útskýra hvort afstaða hans væri efnisleg á móti frumvarpinu, eins og svo sannarlega mátti ráða af ræðu hans hér áðan um þörfina eða ekki þörfina á því að lækka eigin áhættu, eða hvort hann er á móti því almennt að gripið sé til bráðabirgðalagasetningar sem þessarar. Það er alveg skýrt að hann er á móti því og hann ætlar að greiða atkvæði gegn því en sitja hjá við efnisbreytinguna um lækkunina sem hann gerði þó miklar athugasemdir við.

Við verðum að greina þarna á milli. Við getum alltaf deilt um það hvort brýna ástæðu bar til að setja lögin. Það er matsatriði. Það er matsatriði ríkisstjórnar upphaflega og svo er það matsatriði Alþingis. Ekki eru til neinir algildir mælikvarðar á það. Við getum rætt það hvort tilefni hverju sinni kalli á bráðabirgðalög.

Það var mat okkar fyrir fimm árum að lax- og silungsveiðin gerði það ekki. Það er afdráttarlaust mat okkar núna, stjórnarflokkanna beggja, að jarðskjálftarnir hafi (Forseti hringir.) verið tilefni til þess að setja bráðabirgðalögin og að brýna nauðsyn hafi borið til.