135. löggjafarþing — 123. fundur,  12. sept. 2008.

nálgunarbann.

294. mál
[12:00]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil lýsa vonbrigðum mínum með þessa rauðu töflu sem ég horfi á hér. Ég hefði viljað óska — og ég gerði það áðan — að allsherjarnefnd lýsti því yfir að hún væri viljug og fús til þess að leiða í lög austurrísku leiðina. Slík viljayfirlýsing er ekki til staðar. Hvað gerir allsherjarnefndin? Hún vísar málinu til Björns Bjarnasonar, hæstv. dómsmálaráðherra, sem er búinn að vísa málinu frá sér, hann er búinn að vísa því aftur til þingnefndarinnar.

Það er sleifarlag í gangi í þessari þingnefnd, hæstv. forseti, að hún skuli ekki hafa nýtt allan veturinn til að skoða þá sjálfsögðu réttarbót sem hér er verið að leggja til til handa þeim sem þurfa að búa við heimilisofbeldi, ofbeldi inni á sínum eigin heimilum. (Gripið fram í.) Það er sleifarlag í nefndinni að hún skuli ekki hafa unnið málið í vetur, hún er búin að hafa allan veturinn til þess.

Guð láti gott á vita. Ég vona að það verði annað upp á teningnum næst þegar þetta mál verður tekið hér fyrir og ég skal sjá svo um að þess verði ekki langt að bíða. Þá treysti ég því að hv. þingmenn Samfylkingarinnar greiði atkvæði (Forseti hringir.) á annan hátt en þeir virðast gera núna. (Forseti hringir.) Ég segi já, hæstv. forseti.