135. löggjafarþing — 123. fundur,  12. sept. 2008.

nálgunarbann.

294. mál
[12:02]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tel það afar mikilvægt við afgreiðslu þessa frumvarps að því sé rækilega til haga haldið að með breytingum þeim sem nú er verið að gera á þessari löggjöf er svigrúm til að úrskurða nálgunarbann rýmkað. Þá á ég við breytinguna við 1. gr. þar sem orðið „rökstudd“ er fellt niður og einvörðungu talað um ástæðu í stað rökstuddrar ástæðu.

Enn fremur í 3. gr. þar sem segir að horft skuli til hagsmuna þeirra sem njóta skulu verndar af nálgunarbanni með tilliti til þeirra takmarkana sem bannið leggur á athafnafrelsi þess sem því sætir.

Meginbreytingin er síðan sú að nú hefur verið sett inn í lögin ákvæði sem kveður á um að litið skuli til framferðis þess sem krafist er að sæti nálgunarbanni á fyrri stigum. Fortíðin og fyrra framferði skiptir auðvitað öllu máli þegar metið er tilefni til nálgunarbanns. Ég tel þetta mjög jákvæðar breytingar (Forseti hringir.) og segi já.