136. löggjafarþing — 12. fundur,  14. okt. 2008.

lög um fjármálafyrirtæki.

[13:36]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Hv. þingmaður spyr: Hver fylgist með ríkisstjórninni? Ég vona að hv. þingmaður geri það eins og allur þingheimur. Okkur ber skylda til að fylgjast með framkvæmdarvaldinu eins og allir þingmenn vita. En varðandi fjármálaþjónustuna almennt er ljóst að við getum ekki sett hvaða lagaramma sem er í ljósi þess að við erum skuldbundnir samkvæmt EES-samningnum og þá sérstaklega varðandi 30. og 37. gr. hans og IX. viðauka. Í þessum greinum samningsins gilda nokkrar meginreglur sem ég tel ekki heimilt að brjóta nema við brjótum þá samninginn sjálfan.

Þar er m.a. sú regla að fjármálafyrirtæki sem hefur fengið starfsleyfi í einu af aðildarríkjunum getur á grundvelli þess opnað útibú í sérhverju hinna ríkjanna án þess að þurfa sérstakt leyfi stjórnvalda fyrir því. Það er hins vegar skýrt að Fjármálaeftirlitinu, hinu íslenska, ber að hafa eftirlit með útibúum. Sú er m.a. ástæðan fyrir því að við hækkuðum fjárveitingar til FME á milli ára í síðustu fjárlögum um 52%. Umsvif íslensku fjármálafyrirtækjanna höfðu aukist svo mikið á undanförnum árum og það krafðist öflugra fjármálaeftirlits.

Í lögunum er heimild fyrir Fjármálaeftirlitið að banna stofnun útibús ef það hefur réttmæta ástæðu til að ætla að stjórnun eða fjárhagsstaða hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis sé ekki nægilega traust. Fjármálaeftirlitið hefur þetta lagaúrræði sem hefur verið talsvert rætt í fjölmiðlum undanfarna daga en eins og reynslan sýnir hefur Fjármálaeftirlitið augljóslega ekki séð ástæðu til að banna stofnun þessara útibúa á sínum tíma enda sá enginn þessar hamfarir fyrir. Að þessu leyti tel ég ekki nauðsynlegt að breyta lögunum en að banna alfarið stofnun útibúa væri að mínu mati brot á EES-samningnum.

Ég tel hins vegar að þegar mestu lætin eru gengin yfir beri okkur, bæði á þinginu og í viðskiptaráðuneytinu, að fara yfir allar reglugerðir og lög á þessu sviði.

Að lokum varðandi þessa Icesave-reikninga í Bretlandi: Ég tek undir það að auðvitað átti Landsbankinn fyrir löngu að vera búinn að breyta þessum Icesave-reikningum á þann veg að þeir tilheyrðu dótturfélagi en ekki útibúi. Ef þeir hefðu verið búnir að því sætu íslenskir skattgreiðendur ekki með þessa ábyrgð eins og stefnir í að þeir muni að einhverju leyti gera.