136. löggjafarþing — 14. fundur,  16. okt. 2008.

aðgerðir til aðstoðar bændum.

[10:39]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að þetta svar veldur mér miklum áhyggjum. Ég var á fyrsta opna fundi Alþingis um daginn með sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd þegar kreppan var skollin á og þegar ég hélt að forgangsatriðið væri að ræða aðgerðir til bænda, til sjómanna, smábátasjómanna og fleiri þá var það bara ekki á dagskrá heldur matvælafrumvarpið sem er ógnun við fæðuöryggi, sem er grundvallaratriði í stöðu okkar í dag, ógnun við matvælaöryggi og ógnun við störf. Enn sýnist mér hæstv. ráðherra loka augunum fyrir þessum stóru vandamálum. Hvaða vinna er í gangi í ráðuneyti hæstv. ráðherra til að koma bændum til hjálpar? Á að frysta lánin? Hvaða skilaboð hafa bændur fengið? Á að bregðast við gagnvart áburðarverði og öðru slíku? Þeir verða að fá hærra afurðaverð. Miðað við hvað aðföng hafa hækkað á síðustu árum þá er það grundvallaratriði. Ef til vill verðum við að niðurgreiða matvælin meira en umfram allt verðum við að tryggja að öll bú verði í rekstri.