136. löggjafarþing — 14. fundur,  16. okt. 2008.

vísitöluhækkun lána.

[10:51]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn vegna þess að það er mikilvægt að við leggjum öll fram tillögur og hugmyndir sem geta orðið til þess að minnka þann skaða sem fólk verður óhjákvæmilega fyrir og þar er sjónum þingmannsins beint að lánum hjá Íbúðalánasjóði.

Ég get ekki svarað þessari spurningu hér á stundinni en ég mun auðvitað láta skoða þetta og allar hugmyndir en við verðum að horfa á þær út frá því hvað er raunhæft í þessu efni. Margra augu beinast að Íbúðalánasjóði til að bjarga ýmsu sem nú fer aflaga í samfélagi okkar. Vissulega mun Íbúðalánasjóður gera þar sitt besta en við verðum alltaf að horfa til þess að allar aðgerðir sem við förum í tefli ekki sjóðnum í hættu. Við megum ekki við því.

Hér er spurt um vísitöluna, hvort þurfi að hreyfa við henni og búa til ef ég skil einhvers konar hamfaravísitölu. Ég held að allt slíkt sé mjög varhugavert þó að ég segi hér og nú að ég muni láta skoða þetta. Við megum ekki vera með vísitölu sem mælir vitlaust eða er með rangar mælingar. Ég vil nefna að við fórum í gær ákveðna leið í þá átt sem hv. þingmaður nefndi með þeim hugmyndum og tillögum sem við settum fram. Þar var m.a. sett fram sú tillaga sem nú er farið að vinna eftir að það sé val hjá fólki um að greiða eingöngu vexti og verðbætur af vöxtum í tiltekinn tíma. Það mun lækka verulega greiðslubyrði hjá fólki sem vill velja þá leið. Síðan erum við með frystingu á lánum sem er heimil í allt að þrjú ár og það gildir bæði um innlend og erlend lán. En sú leið sem opnað var fyrir núna í vikunni um að eingöngu séu greiddir vextir og verðbætur af vöxtum í tiltekinn tíma getur lækkað lánin um kannski einn eða tvo tugi þúsunda hjá þeim sem eru t.d. með 20 ára lán. Þá erum við að tala (Forseti hringir.) um 13 þús. kr. lægri greiðslubyrði á mánuði og enn lægri greiðslubyrði ef fólk er búið að borga eitthvað af þessu. En ég mun að sjálfsögðu láta skoða þá leið sem þingmaðurinn nefndi.