136. löggjafarþing — 14. fundur,  16. okt. 2008.

almenn hegningarlög.

33. mál
[11:56]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get staðfest það sem hv. þm. Atli Gíslason sagði að þau frumvörp sem hann vísaði til frá Vinstri grænum varðandi sum af þessum atriðum komust ekki til umræðu í allsherjarnefnd síðasta vetur. Hv. þm. Atli Gíslason veit að það er ekki vegna þess að allsherjarnefnd hafi setið auðum höndum síðasta vetur heldur vegna þess að málafjöldinn hjá nefndinni var gríðarlegur. Það er vissulega rétt að við forgangsröðuðum með þeim hætti að þau mál sem komu frá ríkisstjórn og fyrir lá að nutu stuðnings meiri hluta þingsins, vegna þess að það voru mál sem höfðu fengið umfjöllun og stuðning í þingflokkum stjórnarflokkanna, voru tekin fram fyrir. Þar á meðal voru mjög mörg stór og merk frumvörp sem í flestum tilvikum var allgóð sátt um þegar á reyndi.

Ég veit ekki hvort það er hins vegar málefnalegt hjá hv. þm. Atla Gíslasyni — ég veit ekki hvort hann ætlaði að ná sér niðri á okkur í stjórnarmeirihlutanum eða hefna sín fyrir það að þau mál sem hann bar fyrir brjósti og komust ekki á dagskrá voru ekki afgreidd með því að trufla framgang annarra mála.

En ég verð að geta þess, af því að hv. þingmaður talar hér mikið um kynferðisbrot annars vegar og heimilisofbeldisbrot hins vegar, að menn geta ekki látið eins og ekkert hafi verið gert í þeim málum. Á undanförnum árum hafa verið verulegar breytingar á kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga. Við höfum tekið heimilisofbeldismál sérstaklega fyrir, m.a. í sakamálalöggjöfinni sem afgreidd var síðasta vor. Og þó að þær breytingar (Forseti hringir.) gangi ekki allar jafnlangt og hv. þm. Atli Gíslason hefði helst viljað held ég að hann hljóti að fagna þeirri meginstefnu sem hefur komið fram í þeim breytingum sem samþykktar hafa verið á undanförnum árum því að þessi mál (Forseti hringir.) hafa svo sannarlega fengið athygli.