136. löggjafarþing — 14. fundur,  16. okt. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

6. mál
[12:25]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Ég ætla ekki að eyða löngum tíma í þessa umræðu. Ýmislegt annað brennur á mínu hjarta í dag við þær aðstæður sem við búum við. En sá sem hér stendur og tveir hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Jón Bjarnason og Ögmundur Jónasson, eru meðflutningsmenn þessa frumvarps þar sem við ályktum að Alþingi hlíti niðurstöðu mannréttindanefndarinnar og að lögunum verði breytt í samræmi við úrskurðinn þannig að jafnræði borganna verði tryggt og það verði gætt sanngirni og mannréttinda.

Ég er alveg sammála hv. þm. Árna Johnsen um að það verður að fara fram í þessu máli, sérstaklega núna, af yfirvegun og trúverðugleika. Það er alveg hárrétt. Miðað við efnahagsástandið og miðað við kreppuna er erfitt að fara að rugga bátnum þar sem undirstöðuatvinnugrein okkar á í hlut. Það er ekki þar fyrir, eins og hv . þm. Árni Johnsen benti á, full ástæða til að fara í slíka endurskoðun út af þessum ósköpum. Hann nefndi þar nokkur atriði sem ég get tekið undir. Þau eru fleiri, framsalið. Fleiri þættir sem tengjast þessu kerfi, til að mynda útflutningur á óunnum fiski í dag. Viljum við ekki hafa sem mesta atvinnu í landinu? Það er að koma atvinnuleysi. Aðstæður eru gjörbreyttar. Það verður að tryggja fullvinnsluna innan lands, tryggja atvinnu. Þannig getum við brugðist við.

Við verðum líka að minnast þess að tilgangur laganna hefur ekki náðst að mörgu leyti. Staðar sjávarbyggða vítt og breitt um landið er afar slæm. Smábátasjómenn standa afar illa og skuldir þeirra hafa auðvitað vaxið með gengishruninu allsvakalega. Kvótaskerðingin bitnar harðast á þeim og smærri byggðarlögum. Það þarf líka að hugleiða það vel og vandlega — þar höfum við lagt fram tillögur í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði — að tryggja rannsóknir svo við séum ekki á hálum ís um fiskstofna í hafinu. Þar höfum við meðal annars lagt fram tillögu undir formerkinu Sjómenn græða hafið, um að nýta reynslu og þekkingu sjómanna, nýta þá til upplýsingaöflunar um hitastig í hafinu, veiðar, brottkast og allt slíkt í samvinnu við okkar færustu vísindamenn. Allt þetta og fleira þarf að skoða. En núna er hugurinn við efnahagsvandann mikla sem er algert forgangsatriði og eiginlega verða öll önnur mál hjóm eitt.

Hv. þm. Jón Magnússon hefur gert ítarlega grein fyrir rökstuðningi þess og ég ætla ekki að endurtaka það en ég vil bara lýsa þeirri skoðun minni að við séum bundin við niðurstöðu mannréttindanefndarinnar. Við höfum þar alþjóðlegar skuldbindingar sem okkur ber að fara eftir. Við höfum samþykkt þessa sáttmála. Þeir hafa verið birtir í C-deild Stjórnartíðinda og ef við spilum ekki eftir alþjóðasamningum sem við höfum skuldbundið okkur til þá missum við trúverðugleika á alþjóðavettvangi. Að mínu mati eru viðbrögð ríkisstjórnarinnar við niðurstöðum mannréttindanefndarinnar ófullnægjandi.