136. löggjafarþing — 14. fundur,  16. okt. 2008.

hönnun og stækkun Þorlákshafnar.

22. mál
[13:38]
Horfa

Flm. (Árni Johnsen) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu um undirbúning að hönnun og stækkun Þorlákshafnar ásamt hv. alþingismönnum Lúðvíki Bergvinssyni, Guðna Ágústssyni, Kjartani Ólafssyni, Björk Guðjónsdóttur, Grétari Mar Jónssyni og Bjarna Harðarsyni.

Tímabært er að reyna að tryggja stöðu Þorlákshafnar með stækkun sem gæti rímað við þá möguleika sem fram undan eru á næstu árum með nýtingu og uppbyggingu margþættra hugmynda um stórvirkar framkvæmdir, sem ítarlega hefur verið rætt um í Þorlákshöfn. Ástæða er að skora á samgönguráðherra að fela Siglingastofnun Íslands að hefja nú þegar undirbúning að hönnun og stækkun Þorlákshafnar svo hún geti þjónustað allt að 60.000–80.000 tonna og 225 metra löng skip.

Eins og höfnin er í dag komast ekki þangað skip sem eru meira en 150 metrar og 20 þúsund tonn. Miklu munar til að það geti tryggt eðlilega uppbyggingu á komandi árum, bæði á Íslandi og ekki síst í Þorlákshöfn. En þar, í næsta nágrenni orkukatla þjóðarinnar, hefur lengi verið biðstaða.

Mikil uppbygging er fyrirhuguð í Þorlákshöfn á næstu árum á sviði iðnaðar, stóriðju og matvælaiðnaðar. Þess vegna er það einmitt mikilvægt að íslensk stjórnvöld hafi á takteinum hugmyndir að stærð og gerð hafnar á næstu missirum. Þorlákshöfn er eina þjónustuhöfnin fyrir allt Suðurlandsundirlendið, en þar er mjög mikil uppbygging atvinnurekstrar og byggða eins og sést hefur á undanförnum missirum og árum.

Árnessýsla og Rangárvallasýsla eru mjög ört vaxandi athafnasvæði og mesta uppbygging á landinu er í Árnessýslu. Erlend stórfyrirtæki í ýmsum greinum stóriðju standa nú í viðræðum við bæjaryfirvöld í Ölfusi um uppbyggingu þar, sem mun hafa mikla og jákvæða þýðingu fyrir Suðurland og landið allt. Því skiptir miklu að geta brugðist við eftirspurninni með stuttum fyrirvara.

Ugglaust eru vandkvæði á því að stækka Þorlákshöfn verulega án þess að það kosti mjög mikið en þessa úttekt þarf að ganga í. Siglingastofnun á að vinna það verk og hefur hún að mestu lokið líkanaprófum á öllu svæði hafnarinnar í Þorlákshöfn. Það gæti verið að byggja þurfi nýja höfn til að sinna verkefninu en einnig þarf að gera ítarlegar úttektir á því hvort hægt sé að breyta mannvirkjum núverandi hafnar þannig að hún stækki líkt og hér er talað um og geti sinnt allt að 225 metra löngum og 60.000–80.000 tonna skipum.

Mikilvægt er að gengið sé í þetta nú þegar. Það er borð fyrir báru hjá Siglingastofnun í nýtingu líkanaprófunarstöðvar og það er vinna sem þarf að vinna í framhaldi af því sem hefur þegar verið gert í Þorlákshöfn en því þarf að fylgja eftir til að freista þess að nýta stækkun hafnarinnar á skynsamlegan hátt. Nær 100 stór flutningaskip og farþegaskip koma nú þegar árlega til Þorlákshafnar og mikil aukning er fyrirsjáanleg við eðlilegar aðstæður — sem hljóta að skapast á næstu mánuðum og missirum á Íslandi — auk alls fiskiskipaflotans sem Þorlákshöfn þjónustar, bæði lítil og stór skip.

Þetta er verkefni sem þarfnast ekki margra orða en er eitt af brýnu verkefnunum sem varða landsbyggðina, nýtingu hennar og traustari styrkingu fyrir allt samfélagið og skynsamlega staðsetningu hafnar á einu uppbyggilegasta svæði landsins í dag og á næstu árum og áratugum. Það er mikill munur fyrir allt sem lýtur að skiparekstri og samgöngum við landið að geta sloppið við Reykjanesröstina að einhverju leyti eða fara með djúpsiglingar þar. Fyrir utan það að aðstæður eru allar þannig í nágrenni Þorlákshafnar að þar liggur fyrst og fremst krafa um að gerð verði stærri höfn sem geti sinnt nútímakröfum.