136. löggjafarþing — 14. fundur,  16. okt. 2008.

samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.

13. mál
[14:10]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég fagna þeirri þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir um að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins verði lögfestur en eins og hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson tók fram eru 20 ár liðin frá því að sá sáttmáli var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.

Mér finnst við Íslendingar hafa ákveðnu hlutverki að gegna að lögfesta þennan sáttmála, ekki síst því hlutverki að vera fordæmisgefandi fyrir aðrar þjóðir. Því eins og við vitum verða börn oft illa úti í þeim ríkjum þar sem erfiðleikar steðja að og á ég sérstaklega við fátæk svæði og stríðshrjáð svæði þar sem börnum er jafnvel beitt í hernaði eða börn eru hreinlega þrælkuð og því held ég að það skipti miklu að land eins og okkar land, norrænt ríki með styrkar undirstöður, sýni hér gott fordæmi.

Það eru fjögur atriði sem mig langar að nefna sérstaklega í því samhengi. Í fyrsta lagi er í sáttmálanum kveðið á um jöfn tækifæri og jafnræði barna sem ég held að sé mjög mikilvægt fyrir samfélag sem okkar, að við veitum börnum sömu tækifæri til menntunar. Um það er kveðið á í 28. gr. sáttmálans þar sem lögð er gríðarleg áhersla á menntun. Það telst til grundvallarréttinda barna að njóta góðrar menntunar, til að þau geti komist til manns.

Annað sem mig langar að nefna sérstaklega er aðgangur barna að heilbrigðisþjónustu. Við Íslendingar höfum verið svo heppnir að geta státað af minnsta ungbarnadauða í heimi og mæðraeftirlit er til mikillar fyrirmyndar. Þetta þurfum við að horfa á og setja okkur markmið hvað varðar heilbrigðisþjónustu fyrir börn og þetta er líka rætt í sáttmálanum. Ég held að þetta sé líka grundvallaratriði í því að koma börnum til manns og setja um leið gott fordæmi.

Síðan eru þau atriði sem mér hafa verið mjög hugleikin og það er lýðræði barna, að börn hafi rétt til að tjá skoðanir sínar og taka þátt í að móta umhverfi sitt. Við Íslendingar megum kannski standa okkur betur í því að koma á nemendalýðræði innan skólakerfisins. Um það var nokkuð rætt þegar frumvörp menntamálaráðherra sem hér lágu fyrir síðasta þingi voru til umræðu, að auka mætti hlut nemendalýðræðis í skólunum. Ég held að þetta sé lykilatriði í því að tryggja hér lýðræðissamfélag, þ.e. að ala börnin upp í lýðræði. Hér var líka rætt um kennslu í mannréttindum handa þeim sem vinna með börnum og ég held að það hafi gefið mjög góða raun þar sem það hefur verið iðkað, þ.e. að fræða börn um mannréttindi og um lýðræði, kenna þeim á lýðræðissamfélagið sem við búum í og að iðka þetta lýðræði. Rannsóknir frá Norðurlöndunum, sem hafa verið mjög framarlega á þessu sviði, sýna að það er mjög góður bragur á þeim skólum þar sem nemendur taka virkan þátt í því að móta skólaumhverfið, skólasamfélagið og skólastefnuna.

Eins og getið er um í greinargerð með tillögunni hefur umboðsmaður bent á að börn séu allt of sjaldan spurð þegar verið er að taka mikilvægar ákvarðanir um mál sem þau varða. Það geta verið önnur mál en þau sem flutningsmaður tillögunnar fór yfir, þ.e. mál sem tengjast fjölskyldu þeirra, það geta líka verið dagleg mál í nánasta umhverfi. Það hefur stundum gleymst þegar skólar eru hannaðir og skólalóðir, að spyrja börn álits sem þó eiga að eyða dagvinnutíma sínum þar. Þetta þarf að koma inn á öllum stigum hvort sem verið er að ræða um umhverfi barna á heimilum þeirra eða í starfi því flest börn eyða átta til níu klukkustundum utan heimilis síns á dag.

Fjórða atriðið sem mig langar sérstaklega til að nefna er sjálfstæði barna sem einstaklinga. Það er umhugsunarefni af því að við lifum í samfélagi sem býður upp á mun meiri eftirlitsmöguleika en áður þekktust. Nú er hægt að hafa eftirlit með því hvort börnin neyta skólamáltíða, í hverja þau hringja, hvernig lífi þeirra vindur fram og við þurfum auðvitað alltaf að hafa það í huga með slíkum tækniframförum sem hafa gert allt þetta eftirlit mögulegt, að tryggja sjálfstæði barnanna, að þau eigi sinn rétt á einkalífi óháð þessu. Mig langar bara að nefna eitt dæmi sem hefur víða komið upp en það er þegar settar hafa verið upp eftirlitsmyndavélar í skólum og jafnvel inni á heimavistum þar sem börn undir 18 ára aldri dveljast og jafnvel án þess að ráðgast við nemendurna í heimavistunum. Þetta er auðvitað þeirra heimili og staður fyrir einkalíf og því held ég að við þurfum einmitt að hafa þetta í huga, að þarna erum við að tala um einkalíf þessara barna og það skiptir máli að spyrja um skoðanir þeirra.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu frekar en ítreka það að ég tel þetta framfaraskref og fagna þeirri þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir og vonast til að hún fái afgreiðslu.