136. löggjafarþing — 14. fundur,  16. okt. 2008.

lánamál og lánakjör einstaklinga.

16. mál
[15:10]
Horfa

Flm. (Jón Magnússon) (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði í framsögu fyrir þessari þingsályktunartillögu fyrir tæpu ári síðan að verðtryggingin væri í raun ekkert annað en hækja ónýts gjaldmiðils, gjaldmiðils sem fólk treysti ekki nema í almennum daglegum viðskiptum og það er óásættanlegt. Við eigum að vera með þann verðmæli, með þá verðeiningu, með þá mynt sem við treystum bæði til lengri og skemmri tíma eins og allar aðrar þjóðir í okkar heimshluta. Það eru nú dæmi um að tekin hafi verið upp verðtrygging, meðal annars meðan Mexíkóar gengu í gegnum efnahagshörmungar á sínum tíma. En verðtryggingin þar í landi var afnumin um leið og menn komust í gegnum þær hremmingar af því að meira að segja þar töldu menn algjörlega fráleitt að haldið væri við þeirri óeðlilegu stöðu þegar eðlilegt ástand ríkti í þjóðfélaginu og gjaldmiðillinn hafði náð ákveðinni festu.

Ég sé ekki að það sé ágreiningur á milli mín og hv. þm. Marðar Árnasonar varðandi gjaldmiðilinn, ég hef lengi haldið því fram að okkur bæri nauðsyn til að tengjast stærra myntkerfi til þess að við hefðum gjaldmiðil sem tryggði okkur öryggi. Það hefur komið í ljós hreinlega í þessum mánuði og máttu allir sjá það fyrir að til þessa gat dregið. Þar af leiðandi erum við í þeirri stöðu sem við erum í dag.

Síðan er það annað mál hvort menn telja það heppilegast varðandi myntina að tengjast ákveðnum gjaldmiðli eða hreinlega myntkörfu en það er alveg ljóst að það kerfi sem við höfum gengur ekki.