136. löggjafarþing — 14. fundur,  16. okt. 2008.

lánamál og lánakjör einstaklinga.

16. mál
[15:13]
Horfa

Flm. (Jón Magnússon) (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt athugasemd hjá hv. þm. Merði Árnasyni um höfuðfat erlends konungs. Ég ætla þá að vekja athygli hv. þingmanns á því að það er eins með höfuðfat Alþingis, það er skjaldarmerki og höfuðfat erlends konungs, þess konungs sem hvað harðast barðist gegn þingræði í landi sínu á sínum tíma. Þá lutum við honum og það er náttúrlega til vansa fyrir Alþingi að hafa merki arfakonungsins uppi á þingi. Ég lagði á sínum tíma fram þingsályktunartillögu um að þessi óskapnaður yrði tekinn niður en skjaldarmerki Íslands sett í staðinn. Ég mun reyna að halda því til streitu þegar mér gefst tækifæri til.

Varðandi það hv. þm. Mörður Árnason var að velta fyrir sér get ég verið mjög stuttorður. Það liggur alveg fyrir og hægt er að lesa í stefnuskrá Frjálslynda flokksins frá því fyrir síðustu kosningar að við gerðum sérstakar athugasemdir við skipun gjaldmiðilsmála. Við vöruðum við því að við hefðum hér í minnsta myntkerfi í heimi gjaldmiðil sem væri á floti, þ.e. stjórnaðist af markaðsaðstæðum hverju sinni. Við vöruðum við þeirri hættu sem íslenskri þjóð, efnahagslegum stöðugleika væri búin með því að hafa málin með þeim hætti. Við lögðum til að íslenska krónan yrði fyrst um sinn tengd helstu viðskiptagjaldmiðlum þjóða sem við ættum viðskipti við sem eru þá náttúrlega evruþjóðirnar, Bretar og Bandaríkjamenn aðallega. Það lögðum við til fyrir kosningar og hefur komið í ljós að skynsamlegasta stefnan varðandi gjaldmiðils- og efnahagsmál sem boðuð var af nokkrum stjórnmálaflokki fyrir kosningarnar var stefna okkar frjálslyndra.