136. löggjafarþing — 14. fundur,  16. okt. 2008.

lánamál og lánakjör einstaklinga.

16. mál
[15:26]
Horfa

Samúel Örn Erlingsson (F):

Herra forseti. Sú tillaga til þingsályktunar sem hér er rædd er í alla staði afskaplega æskilegur útgangspunktur og veganesti hverjar svo sem þjóðfélagsaðstæður eru, hvort sem þær eru eins og í dag þar sem eru heldur dökkar horfur, eða hvort þær eru eins og þær voru fyrir ári þegar íslenska þjóðin taldi sig almennt á fljúgandi siglingu velferðar.

Hér er um að ræða helstu skuldbindingar hinnar venjulegu fjölskyldu, lán til húsnæðiskaupa, þar sem hver fjölskylda tekst yfirleitt á við stærstu fjárfestinguna í lífi sínu. Þess vegna lít ég svo á að við séum í raun að ræða hér fjölskyldumál sem rímar afskaplega vel við þau góðu og flottu mál sem verið hafa til umræðu í dag, hvort sem þau eru um lögfestingu samnings frá Sameinuðu þjóðunum um réttindi barna, breytingu á barnaverndarlögum eða þingsályktunartillögu um stofnun barnamenningarhúss. Þau eru öll aldeilis góð og fín fjölskyldumál.

Við þessar aðstæður er gott að skoða það, ekki síst vegna þeirra orða sem féllu hjá málsmetandi ráðherrum við nefnda umræðu í gær um að nú skuli allt undir, allt skuli vera til athugunar og var þar sérstaklega nefndur gjaldmiðillinn okkar. Ég ætla ekki að fjölyrða neitt um það, nóg er búið að benda á í því sambandi en vissulega er þar stór hluti af þessari mynd hvernig fjölskyldulánin okkar, húsnæðislán, vaxa með vísitölu- og verðtryggingarreikningi. Þar ætti allt að vera undir, allt þarf að athuga.

Mér hefur alltaf fundist það ákaflega skrýtið hvernig húsnæðisverð hafði áhrif á vísitölu, sérstaklega þegar það fór á mikið flug. Vísitalan hafði svo bein áhrif á lán fólksins sem átti húsin sem voru allt í einu svo hátt metin. Fólkið hafði greitt af þeim í mörg ár og lánin hækkuðu. Í hvers þágu var það? Það er skrýtin stærðfræði fyrir mína parta.

Nú lækkar húsnæðisverð aftur og sérfræðingar segja að það lækki hratt og mikið en það kemur ekki fram. Af hverju? Af því að húsnæði selst ekki og þess vegna kemur hið lága verð ekki fram. Ármann Kr. Ólafsson, hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins, nefndi þetta í fyrirspurn í dag og spurði um úrræði hvað það varðar. Vísitalan gæti haldist óbreytt í marga mánuði þrátt fyrir að ein af meginstoðum hennar, húsnæðisverðið, lækki. Við vitum það en það kemur ekki fram. Þar með halda lánin áfram að vaxa með tilliti til gengisbreytinga og slíkra hluta. Það á nefnilega oft við um verðtryggingu og vísitölu, og kannski aldrei sem nú og þann tíma sem fram undan er, að ranglætið í þessu efni er vont en kannski er réttlætið enn þá verra þegar farið er að reikna út samkvæmt þeim forsendum sem búið er að gefa.

Tillagan er gott veganesti fyrir þá sem takast á við það vandasama verkefni að greiða úr vandræðum íslenskrar þjóðar. Hún er gott veganesti fyrir viðskiptaráðherra sem er sérstaklega nefndur í tillögunni. Hún gengur út á að hann skuli láta fara fram skoðun á orsökum lánakjara hér og annars staðar. Það er ekki síður gott veganesti fyrir hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra sem flutti snjalla ræðu í gær um úrræði í slagnum við þann mikla vanda sem fram undan er og þjóðin á nú við að glíma. Það gladdi mitt litla hjarta að hæstv. félagsmálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, skyldi í því efni sérstaklega nefna verðtryggingu ekki síður en gengistryggingu.