136. löggjafarþing — 15. fundur,  28. okt. 2008.

hækkun stýrivaxta.

[13:39]
Horfa

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Þjóðin sem fylgdist með þessari umræðu sá að hér stóð nakinn ráðherra, hér stóð allsber ráðherra sem réðist með ómerkilegum hætti bæði á Seðlabanka og seðlabankastjóra sem ríkisstjórnin hefur hlýtt í einu og öllu. Ég hef ekki átt fund í Seðlabankanum frá því að ég var kallaður þar út þegar hrunið á Glitni átti sér stað. Það er mikill áróður um að ég sitji uppi í Seðlabanka alla daga. Ég hef ekki komið þar síðan, ekki verið boðið í kaffi eða nokkurn hlut. Þetta er ómerkilegasta ræða sem flutt hefur verið í þinginu, hún er marklaus og dónaskapur við þingið, hæstv. forseti. Ef ég réði hér mundi ég reka þennan hæstv. ráðherra úr sal því að hann á ekki skilið að tala hér þegar hann talar svona. Það á að vísa honum úr sal. Við erum að tala hér um grafalvarlegt efni. Við erum að tala um það að tekin hafi verið vaxtaákvörðun og ég spyr í grandaleysi — það kom fram í nefnd í gær að þetta lægi ekki fyrir — ég spyr hvenær heildstæðar tillögur liggi fyrir og ég fæ bara skít og dónaskap. Þetta er ekki málefnalegt.

Ef blessuð ríkisstjórnin er í þessum farvegi (Forseti hringir.) þá er ekki von að hún leysi stærri mál. Nú fer ég að verða talsmaður þess að hún fari frá strax. Ég hélt að hún yrði að sitja aðeins lengur, blessunin, en ég held hún sé dáin, því miður.