136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[14:12]
Horfa

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni þessa umræðu. Varðandi gjaldmiðilinn liggur fyrir að opinbert skráð gengi á evrunni í dag er 153 kr. Það sem hv. þingmaður var að tala um að hugsanlega væri verið að kaupa eða selja krónuna á 200 kr. það kann vel að vera, það þekki ég ekki. Þegar ég er að tala um hvaða kerfi við eigum að taka upp varðandi gjaldmiðilsmálin þá er ég að tala um og velta fyrir mér hvernig við getum skapað stöðugleika til frambúðar í þjóðfélaginu og ég legg áherslu á að við gerum það ekki með því að halda áfram þeim hrunadansi sem hefur verið stiginn hér undanfarin sex ár með flotkrónunni. Við eigum að hætta því. Við eigum að nýta og athuga kosti þess að tengjast stærra myntkerfi.

Hv. þm. Árni Páll Árnason sagði í umræðunni í vetur á þingi að það kostaði 100 milljarða að halda uppi þessum gjaldmiðli. Ég veit ekki hvort sú tala er rétt en hæstv. forsætisráðherra mótmælti ekki þeim útreikningi hv. þingmanns, en við höfum a.m.k. ekki efni á slíkum lúxus í dag. Það sem ég var einfaldlega að benda á, þ.e. tillögur okkar frjálslyndra í málinu, er að við getum með einföldum skjótvirkum hætti leitað eftir samningum við Norðmenn um að komast í myntsamstarf við þá. Þá mundi að sjálfsögðu byrja ákveðið aðlögunarferli sem hugsanlega leiddi til samninga. Einhverra leiða verðum við að leita til þess að stöðugleiki geti orðið að veruleika, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson. Það er grundvallaratriði. Það er forsenda þess að atvinnulíf verði á nýjan leik blómlegt og þetta verði þjóðfélag vaxtar. Það er það sem við sameiginlega viljum stefna að.