136. löggjafarþing — 18. fundur,  31. okt. 2008.

LÍN og námsmenn erlendis.

[10:57]
Horfa

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir að koma fram með þetta mikilvæga málefni og það er alveg rétt að námsmenn okkar erlendis mega ekki flosna upp úr námi eða finna fyrir óöryggi vegna þessa erfiða ástands. Ég hef beitt mér fyrir lausnum í málinu og mun eftir að þessum fyrirspurnatíma er lokið, hitta formann sjóðsins og námsmannahreyfinganna, aðallega SÍNE, til þess að geta vonandi í dag komið með tillögu til að leysa þennan tímabundna vanda.

Síðan, eins og hv. þingmaður sagði, getum við alltaf rætt heildarstefnu sjóðsins. Hún er náttúrlega alltaf umræðunnar virði en í dag verðum við að bregðast hratt við og líta til þeirra hugsanlegu möguleika sem við höfum og ég held að við höfum ákveðið svigrúm innan ramma sjóðsins einmitt til þess að koma til móts við þessa erfiðu stöðu námsmanna og ég vonast til þess að geta kynnt það síðar í dag.