136. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2008.

rannsókn á hræringum á fjármálamarkaði.

[13:38]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil inna hæstv. forsætisráðherra og talsmenn stjórnarflokkanna eftir því hvar séu á vegi stödd þau mál sem lúta að heildarrannsókn og tæmandi rannsókn á þeim atburðum sem orðið hafa í fjármálakerfi okkar. Það hefur borið á góma af og til og menn hafa þá talað um hvítbækur og annað í þeim dúr en síðan hefur lítið gerst. Það er rétt að upplýsa að engar viðræður hafa farið fram milli stjórnmálaflokkanna eða þingflokkanna um það hvernig staðið verði að þessum málum.

Almenningur gerist nú æ órólegri. Það er mikill skortur á upplýsingum og menn eru hissa og hugsi yfir ýmsu sem virðist vera að gerast í skjóli Fjármálaeftirlits, skilanefnda og tímabundinna bankaráða þótt afar takmarkaðar upplýsingar komi fram um það. Almenningur hefur þá óþægilegu tilfinningu, og við þingmenn hér á Alþingi hljótum að deila henni enn sem komið er að nokkru leyti, a.m.k. fulltrúar stjórnarandstöðu, að það litla sem gerist í þessum málum er að framkvæmdarvaldið og þeir aðilar sem komið hafa efnahag landsins í kaldakol burðast nú við að rannsaka sig sjálfir. Slíkt getur eðli málsins samkvæmt aldrei gengið. Tæmandi og heildstæð rannsókn og yfirumsjón með slíku getur augljóslega ekki verið í höndum framkvæmdarvaldsins. Spurningin er: Þarf ekki að koma til kasta Alþingis og þurfa stjórnmálaflokkarnir og þingflokkarnir ekki að sameinast um markvissan og skjótan undirbúning að þessu, annaðhvort með því að setja lög um sérstakar rannsóknaraðgerðir af þessu tilefni eða að koma þessu með einhverjum öðrum hætti í farveg?

Ég held að það dugi ekki lengur að ýta þessu á undan sér. Það þarf að gæta að því að slík rannsókn komist í farveg það tímanlega og það skjótt að engin gögn hafi glatast og auk þess er nauðsynlegt að fullvissa almenning í landinu um að það verði gert.