136. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2008.

bankaráð ríkisbankanna.

[13:46]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Hv. þingmaður er í raun og veru að tala um tvennt hér. Í fyrsta lagi spyr hann um skipun varanlegra bankaráða en það er ætlunin að ganga frá þeirri skipun á næstu dögum að höfðu samráði við stjórnarandstöðuna. Við gerum ráð fyrir að því máli geti lokið í vikunni en það er rétt að það hefur dregist nokkrum dögum lengur en til stóð. Varðandi rannsókn á hugsanlega saknæmu athæfi er komið fram að ákveðnum mönnum hefur verið falið að hefja undirbúning að slíkri rannsókn á vegum dómsmálaráðherra. Ég held að það sé alveg skýrt og nauðsynlegt að slík rannsókn fari fram.

Í öðru lagi að því er varðar annars konar athæfi sem ef til vill er ekki sakhæft en er hins vegar eitthvað annað athugavert við hefur Fjármálaeftirlitið að sjálfsögðu þar ákveðna eftirlitsskyldu. Ég veit ekki betur en að á vegum þess sé unnið að slíkum athugunum eins og efni standa til og eðlilegt er. Ég fullvissa hv. þingmann um að engu verður undan skotið í þeim efnum.