136. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2008.

bankaráð ríkisbankanna.

[13:47]
Horfa

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Varðandi það sem ég minntist á er eðlilegt að Fjármálaeftirlitið fari strax yfir þær fullyrðingar sem nú hafa verið í fjölmiðlum um að milljarðaafskriftir hafi verið gerðar í einkabankakerfinu á síðustu dögum þess. Það verður að rannsaka það strax sem sakamál. Ég spyr hæstv. forsætisráðherra aftur: Hefur það ekki verið rætt í ríkisstjórn og hver eru áformin í þeim efnum? Mér fannst svarið ekki skýrt.

Ég vil enn fremur segja að það hefur dregist hjá hæstv. forsætisráðherra að skipa varanleg bankaráð. Það hefur margt dregist og hvað er verið að gera í skjóli þess dráttar? Eigum við í stjórnarandstöðuflokkunum svo að koma að bankaráðunum þegar búið er að ganga frá ýmsum hlutum? Það vekur tortryggni og áhyggjur margra manna. (Forseti hringir.) Ég bið um heiðarleika og hrein viðskipti við stjórnarandstöðuna og við samfélagið á Íslandi sem allt er í sárum.