136. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2008.

viðræður forsætisráðherra við Gordon Brown í apríl.

[13:55]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Aðvörunarbjöllur í alþjóðahagkerfinu byrjuðu að hringja í ágústmánuði árið 2007 þegar undirmálslánakreppan hófst í Bandaríkjunum. Hún hefur síðan magnast upp í mikinn fellibyl út um allan heim sem við sjáum ekki enn þá fyrir endann á. Enn hrynja bankar víðsvegar um heiminn og stjórnvöld víða dæla nú stórkostlegum upphæðum af almannafé í bankakerfi sín.

Við sáum þetta ekki fyrir í aprílmánuði ef það er það sem hv. þingmaður spyr um. Við sáum ekki fyrir að Merrill Lynch mundi leggja upp laupana, við sáum ekki fyrir að Lehman Brothers mundu fara á hausinn og þar af leiðandi sáum við ekki fyrir að bankarnir mundu lenda í erfiðleikum við að endurfjármagna sig eins og raunin varð í síðari hluta septembermánaðar. Það er orsökin fyrir því að þeir féllu með þeim hætti sem raun bar vitni. Auðvitað sáu menn fyrir ýmsa efnahagslega erfiðleika og það var það sem var til umræðu á þessum fundi, alþjóðlega efnahagsvandamálið sem þá blasti við.