136. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2008.

frumvarp um eftirlaun.

[13:56]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil spyrja út í vinnubrögð Samfylkingarinnar. Í stjórnarsáttmálanum stendur að breyta eigi eftirlaunalögum og Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn hafa ætlað að standa saman að því. Síðan ber svo við að fimm þingmenn Samfylkingarinnar leggja fram slíkt mál hér í þinginu. Það gengur út á að breyta eftirlaunum forseta Íslands, ráðherra, þingmanna og hæstaréttardómara. Þrír þessara þingmanna eru hér í salnum núna.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar og hæstv. utanríkisráðherra, segir í vor að hún vilji helst láta breyta þessum lögum fyrir slit á vorþingi. Nú kastar tólfunum þegar hv. þm. Árni Páll Árnason segir í fjölmiðlum að hann vilji afnema eftirlaunalögin strax þrátt fyrir mögulega bótaskyldu, smásálir geti þá sótt forréttindi sín með dómi.

Gott og vel. Ég held að það sé stefna allra flokka að afnema þessi lög eða að breyta þeim. Hér er 43 manna þingmeirihluti Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar. Þess vegna spyr ég: Af hverju er ekki búið að breyta lögunum nú þegar? Hvað er Samfylkingin að blaðra daginn út og inn og gerir svo ekkert í málunum? Þess vegna spyr ég hæstv. iðnaðarráðherra: Hvenær verður lögunum breytt fyrst Samfylkingin rekur svona á eftir því? Ég tek fram að ég styð það. Framsóknarflokkurinn hefur ályktað um að breyta eigi lögunum. Af hverju er ekki búið að gera það, hæstv. iðnaðarráðherra?