136. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2008.

staða á fjölmiðlamarkaði á Íslandi.

[14:32]
Horfa

Bjarni Harðarson (F):

Frú forseti. Við ræðum mjög mikilsvert mál sem er staðan í fjölmiðlum á Íslandi. Ég get ekki alls kostar tekið undir árnaðaróskir til þess nýja félags sem boðar núna algera yfirtöku eins manns á nær öllum fjölmiðlum, árnaðaróskir sem komu fram áðan, því að ég tel þetta grafalvarlegt mál og í raun og veru er staðan sú að sömu öfl og komið hafa íslensku viðskiptalífi í mjög þrönga og erfiða stöðu, svo ekki sé fastar að kveðið, ráðast nú fram og henda hluta af fjölmiðlaskuldum sínum framan í almenning en ætla sér sjálf að sitja að sömu fjölmiðlavöldum og hafa orðið þjóðinni mjög dýrkeypt. Það hefur orðið þjóðinni dýrkeypt hvernig tengslin milli stórfyrirtækjanna og fjölmiðlanna hafa verið. Ég hafna því alfarið þegar menn tala um stöðu Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði sem sérstaklega óeðlilega. Sjálfur hef ég verið fjölmiðlamaður og rekið fjölmiðlafyrirtæki allan minn starfsaldur og ég kvarta ekki undan þeirri samkeppni sem kemur frá Ríkisútvarpinu. Ég kvarta undan þeirri óvægnu samkeppni sem raunverulegir og heiðarlegir fjölmiðlaeigendur hafa þurft að glíma við frá matvörukaupmönnum sem hafa notað mjólkurlítrann til að greiða niður auglýsingaverð í þeim mæli að í raun og veru er staðan sú að auglýsingaverð hefur verið nánast óbreytt í krónutölu þau 25 ár sem ég hef sjálfur rekið slíkt fyrirtæki, nánast óbreytt í krónutölu, svona u.þ.b. 40 þúsund fyrir heilsíðuna í litlum blöðum eins og þeim sem ég stóð að og eins og fjölmörg blöð eru rekin í Reykjavík líka, sjálfstæð og inni í stærri keðjum. Í raun og veru hafa þessir aðilar gengið freklega á svig við öll eðlileg samkeppnislög og sú staða sem nú er komin upp er grafalvarleg, herra forseti.