136. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2008.

hámarksmagn transfitusýra í matvælum.

45. mál
[15:37]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég flyt hér tillögu til þingsályktunar um setningu reglna um hámarksmagn transfitusýra í matvælum. Flutningsmenn að þessari tillögu eru sú er hér stendur og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir, Magnús Stefánsson, Bjarni Harðarson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Álfheiður Ingadóttir, Árni Páll Árnason, Björk Guðjónsdóttir og Þuríður Backman.

Eins og sést á flutningsmönnum koma þeir úr öllum flokkum, þ.e. úr Framsóknarflokki, Sjálfstæðisflokki, Samfylkingu og Vinstri grænum en ekki úr Frjálslynda flokknum. Það ríkir því nokkuð breið pólitísk samstaða um málið.

Tillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að hefja undirbúning að setningu reglna um að hámarksmagn transfitusýra í matvælum verði tvö grömm í hverjum hundrað grömmum af fitumagni vörunnar.“

Til þess að útskýra það betur vil ég nefna að tillagan var lögð fram síðastliðið vor en hlaut ekki umræðu þannig að ekki fór hún nú í gegn þá. Hún er því endurflutt hér. Norðurlandaráðsþing hefur nýlega samþykkt tillögu af þessu tagi sem mér þótti mjög gott að skyldi vera gert.

Á síðustu árum hefur mjög mikil umræða skapast um transfitusýrur í matvælum vegna þess hversu hættulegar þær eru heilsu manna. Neysla á transfitusýrum eykur líkur á hjarta- og æðasjúkdómum mun meira en neysla á mettaðri fitu sem þó er vel þekktur áhættuvaldur fyrir slíka sjúkdóma. Transfitusýra eykur líka hættu á offitu og sykursýki 2 sem eru nú þegar sjúkdómar sem menn segja að fari mjög vaxandi og er líkt við faraldur.

Til þess að nefna tölulegar staðreyndir aukast líkur á hjarta- og æðasjúkdómum um meira en 25% ef neytt er fimm gramma af hertri transfitusýru á dag. Það er auðvelt að fá það magn margfalt eingöngu í einni máltíð ef hún er þannig samsett. Transfitusýrur myndast þegar olía er hert en hörð fita er notuð í matvæli til að fá ákveðna eiginleika sem taldir eru eftirsóknarverðir á nútímamarkaði, þ.e. eiginleikar sem auka geymsluþolið. Eins og menn þekkja vilja þeir sem selja matvöru að hún geymist sem lengst þannig að hún rýrni ekki í hillum búða. Þess vegna hefur transfitusýran verið nýtt.

Transfitusýra er t.d. í matvörum þar sem notað er smjörlíki eða djúpsteikingarfeiti með hertri fitu, svo sem í kökum, kexi og frönskum kartöflum. Þá innihalda djúpsteiktur skyndibitamatur, örbylgjupopp, snakk og sælgæti í mörgum tilvikum umtalsvert magn transfitusýra. Einnig má nefna að frá náttúrunnar hendi má finna transfitusýrur t.d. í rjóma og smjöri þannig að við getum ekki sneitt algjörlega fram hjá transfitusýrum í matvælum. Dæmi eru um að hert fita geti verið allt að 60% af heildarfitumagni í vöru. Hér er því um að ræða geysilega há gildi.

Steen Stender, yfirlæknir á Gentofte-sjúkrahúsinu í Kaupmannahöfn, hefur rannsakað magn transfitusýra í völdum fæðuflokkum í mörgum löndum. Hann hefur í því sambandi sérstaklega skoðað skyndibita, kex, kökur og örbylgjupopp. Þar kemur í ljós að Ísland skorar alveg svakalega hátt í þeim samanburði. Ef við tökum þá fæðuflokka sem hann hefur skoðað er ljóst að í Danmörku eru gildin lægst. Dagleg neysla Dana á transfitusýrum eru 0,4 grömm í 100 grömmum af fitu. Í Finnlandi eru þessi gildi 10 grömm, í Svíþjóð eru það 14 grömm og í Noregi 16 grömm en á Íslandi er hlutfallið 35 grömm af 100 grömmum af fitu sem allt of hátt. Við skipum okkur á bekk með Austur-Evrópuþjóðum og Bandaríkjamönnum. Bandaríkjamenn eru með 36 grömm og er því aðeins fyrir ofan okkur. Ungverjar er með 42 grömm og eru hæstir. Neysla transfitusýra hér á landi er því allt of mikil og vekur það athygli. Talið að það sé m.a. vegna þess að við flytjum inn mikið af matvöru frá Bandaríkjunum, það geti skýrt að hluta til þessi háu gildi.

Steen Stender segir að út frá rannsóknum sínum á transfitusýrum sé ljóst að þær eigi ekkert erindi í matvæli. Hann telur að þær séu ágætar í skóáburð og koppafeiti, sem er nú svolítið merkilegt að lesa, en eigi alls ekki vera í matvörum.

Hér á landi hefur neyslan á transfitusýrum sem betur fer minnkað um tæplega þriðjung á síðastliðnum tveimur áratugum þannig að við erum að fara í rétta átt. Þar vegur mest minni smjörlíkisneysla og jafnframt að framleiðendur smjörlíkis framleiða smjörlíki með öðrum hætti nú en áður. Það er mjög jákvætt en samt skipum við okkur á bekk með þeim löndum og þjóðum sem neyta transfitusýra í mestu magni eða um 3,5 grömm á dag sem er tæplega tvöföld sú neysla sem mælt er með. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin segir að ekki sé æskilegt að neyslan fari yfir 2 grömm á dag og við liggjum sem sagt þar yfir.

Hér á landi er ekki skylda að merkja matvöru með næringargildismerkingu. Engar reglur eru í gildi um leyfilegt magn hertrar fitu í matvælum hér á landi og ekki eru reglur um hvernig merkja eigi magn þessarar fitu á matvörum. Neytendum hér á landi er því ekki gefinn kostur á að forðast transfitusýrur þótt viljinn sé fyrir hendi. Þó eru einhverjar matvörur merktar en það er vegna þess að í Bandaríkjunum eru þær merktar og við flytjum vörur þaðan inn til landsins þótt reglur um slíkt séu ekki í gildi hér.

Danir ákváðu árið 2003 að setja reglur um að festa hámarksgildi transfitusýra í mat þar í landi við 2 grömm af 100 grömmum af fitu. Danmörk er fyrsta ríkið sem fer þessa leið. Danir fengu á sig kærur innan Evrópusambandsins frá tveimur matvælaframleiðendum sem töldu að reglur þeirra væru til þess fallnar að hindra frítt flæði vöru um Evrópusambandsmarkaðinn. Þeir voru tilbúnir þess að fara með málið fyrir Evrópudómstólinn og standa á sínu en Evrópusambandið féll frá málaferlunum á hendur Dönunum og þótti það miklum tíðindum sæta af því að venjulega hefur Evrópusambandið ekki málaferli sem það dregur til baka. Það var þó gert í þessu tilviki og sú niðurstaða Evrópusambandsins að hætta við málsókn byggðist á viðurkenndum vísindarannsóknum. Ekki var hægt að hrekja röksemdafærslur Dananna um að transfitusýrur eru mjög hættulegar heilsunni.

Danmörk er því fyrsta landið í heiminum sem setur takmarkandi reglur um iðnaðarframleiddar transfitusýrur í matvælum og reglur þeirra í Danmörku gilda bæði um mat sem framleiddur er þar í landi og um vörur sem eru fluttar inn til Danmerkur. Reynsla þeirra er góð og fundu þeir ekki fyrir neinum erfiðleikum við að innleiða reglurnar. Það var ekki einhver tegund matar sem hvarf gjörsamlega úr hillunum heldur brugðust matvælaframleiðendur við þessari kröfu með því að breyta framleiðsluháttum sínum og það gekk alveg upp.

Bandaríkjamenn hafa valið aðra leið. Þeir hafa sett reglugerð um merkingar á matvælum þannig að hlutfall transfitusýra kemur skýrt og greinilega fram á umbúðum. Síðan þurfa neytendur að ákveða sig hvort þeir velja vöruna eða ekki. Það tel ég að sé mjög tímafrek og flókin leið og hún útheimtir talsvert eftirlit en látum það nú vera. Erfiðast við þá leið, þ.e. að merkja vöruna, er að það krefst svo mikillar þekkingar hjá neytendum að skilja hve mikið magn transfitusýra er í vörunni og miða við magn þeirra í annarri vöru sem þeir neyta. Það er mjög flókin leið fyrir utan það að þeir hópar sem neyta mest af transfitusýrum vita oft ekki af því. Það eru hópar sem ekki rýna í merkingar á matvöru, borða skyndibitamat á veitingastöðum þar sem þeir fá matinn í hendur án þess að vita um innihaldið. Þeir hópar geta því ekki sneitt hjá transfitusýrunum nema þeir sem matreiða á skyndibitastöðunum geri það fyrir viðskiptavinina. Það er mjög ólíklegt að það sé gert ef ekki eru settar reglur um hámarksmagn transfitusýra í matnum.

En það sem menn geta gert til þess að hindra hin neikvæðu áhrif transfitusýra er að velja olíu og mjúka fitu í staðinn fyrir herta. Það er langbest, rannsóknir benda til þess. Mig langar til að draga það sérstaklega fram að rannsóknir benda jafnframt til þess að lýsisneysla vinni gegn neikvæðum afleiðingum af neyslu transfitusýra. Það er auðvitað mjög gleðilegt fyrir Íslendinga og er hugsanlega skýringin á því að hér er þó ekki hærra hlutfall hjartasjúkdóma en raun ber vitni þrátt fyrir að við neytum hlutfallslega svona mikils af transfitusýrum. Það má vera að mikil vörn sé í lýsinu og vinni gegn þessum háu gildum. Mig langaði að benda sérstaklega á þetta af því að það er mikil hefð fyrir því að taka lýsi á Íslandi.

Í New York hafa heilbrigðisyfirvöld bannað notkun transfitusýra á veitingastöðum. Þau hafa sett hámarksgildi um magnið þar. Það eru eitthvað um 25.000 veitingastaðir í New York og þrátt fyrir að Bandaríkjamenn almennt velji leið merkingar hafa heilbrigðisyfirvöld í New York verið í fararbroddi í ýmsum lýðheilsumálum sem þessum. Þau hafa bannað reykingar á veitinga- og skemmtistöðum og voru mjög framarlega í því á sínum tíma. Nú hafa þau sem sagt bannað að notað sé svo mikið magn transfitusýra í mat sem leyfilegt er í Bandaríkjunum, á veitingastöðum í New York.

Virðulegur forseti. Síðustu mínúturnar vil ég nota til að lýsa umræðunni á Norðurlandaráðsþinginu sem var haldið nú fyrir skömmu. Miðvikudaginn 29. október var samþykkt með þorra greiddra atkvæða að fara dönsku leiðina eða þá leið sem ég og fleiri hv. þingmenn leggja til hér. Gefin eru fimm ár í aðlögun. Þar er líka áskorun á ríkisstjórnir landanna að reyna að þrýsta á Evrópusambandslöndin og EES-löndin að taka inn sömu reglur fyrir utan að breyta þessum reglum í hverju landi fyrir sig. Danir eru búnir að því.

Það var mjög skemmtileg umræða þingi Norðurlandaráðs. Þó var hópur þingmanna sem beitti sér gegn þessari tillögu en það voru hægri menn. Málflutningur þeirra var á þá leið að þetta væri nú allt í góðum gír og færi allt í rétta átt, það þyrfti nú ekkert að standa í þessu. Það er að vissu leyti rétt að við erum að þokast í rétta átt, gildin eru að lækka. Það er vegna þrýstings frá neytendum. Menn vilja selja vöruna sína og vita að neytendur eru mjög viðkvæmir fyrir transfitusýrum. Að minnsta kosti beita neytendasamtök sér gegn þeim.

Það er mjög brýnt að hafa í huga að hópur fólks, sérstaklega börn og unglingar og reyndar ýmsir aðrir, neyta mikið skyndibita. Sumir gera það vinnu sinnar vegna, t.d. vörubílstjórar. Slíkar stéttir eru í mestri hættu vegna mikillar neyslu á transfitusýrum. Með því að setja mörkin við 2% verndum við þessa hópa. Það er því tilefni til þess að setja reglur um það. Það er ódýrt og einfalt og skilar miklum árangri. Þess vegna er þessi tillaga flutt. Þó að ýmsir hlutir stefni í rétta átt eins og reykingar, sem fara minnkandi, er samt ástæða til þess að setja reglur sem fara verður eftir. Við settum reglur um að ekki væri leyfilegt að reykja á veitinga- og skemmtistöðum. Þess vegna eigum við líka að setja reglur um að vernda neytendur gegn transfitusýrum. Að flestu leyti gilda sömu rökin, þ.e. lýðheilsurök, virðulegur forseti.