136. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2008.

hámarksmagn transfitusýra í matvælum.

45. mál
[15:51]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég er ein af meðflutningsmönnum þessarar þingsályktunartillögu og styð hana hjartanlega. Ég hef lengi fylgst með áhrifum transfitusýra á heilsu fólks, þ.e. eftir að fram fóru að koma rannsóknir á áhrifum af þessari eðlisbreytingu fitunnar, þ.e. hvaða áhrif það hefur að neyta slíkrar fitu. Notkun vestrænna þjóða á hertri fitu eða transfitusýrum hefur aukist með breyttu mataræði og þá sérstaklega með tilkomu ruslfæðis, eins og við köllum það, eða djúpsteikingar og franskra kartaflna og annars í þeim dúr þar sem þessi fita er í miklu magni. Það ætti að vera fyrirhafnarlítið fyrir okkur að taka upp ákveðnar reglur hvað varðar hámarksinnihald af transfitusýrum í matvælum. Ekki síður þarf að fylgja því eftir að matvæli séu merkt og að neytendur eigi þess kost að kynna sér innihaldslýsingar á matvælum — sama hvort það eru transfitusýrur, erfðabreytt efni eða efni úr umbúðum — og hafi þannig val um það hvaða matvöru þeir kaupa.

Ég tel mjög mikilvægt að við förum að fordæmi þeirra þjóða sem hafa tekið niðurstöður rannsókna alvarlega, séð hvaða áhrif þessi tegund fitu hefur á heilsu fólks og þannig haft áhrif á það að þjóðir breyti mataræði sínu, borði hollari mat — og síðan má fylgja þessu öllu eftir með hvatningu til betri lýðheilsu með meiri hreyfingu o.s.frv.

Það þarf líka að koma upplýsingum um hollustu matvæla að, upplýsingum um að það skipti máli hvað við borðum því við erum það sem við borðum. Það skiptir máli hvernig maturinn er eldaður. Það skiptir líka máli hvernig maturinn er framreiddur ef út í það er farið. Þegar við erum að reyna að koma hollum mat ofan í börnin okkar þá er ekki sama hvernig hann er borinn fram. Við þurfum að hafa þetta allt í huga. Við getum ekki leyft okkur að horfa á síhækkandi hlutfall af þjóðartekjum fara í heilbrigðisþjónustu, í lyf og aðgerðir sem við getum með mjög einföldum hætti fyrirbyggt. Við getum eflt lýðheilsu. Við getum gert það með þessu móti. Við getum aukið og eflt meðvitund fólks um að velja hollan mat, að forðast það sem er óhollt. Við getum áfram verið ströng á reykingabanninu, horft á reykingar út frá óhollustu, út frá óbeinum reykingum og hvika ekki frá því reykingabanni sem við höfum sett á, að það sé bannað að reykja í opinberu húsnæði, á veitingastöðum o.s.frv. Ég styð þessa þingsályktunartillögu einlæglega og tel að þetta sé eitt af þeim málum sem við ættum að geta látið fara hratt hér í gegnum þingið.

Ég bar fram fyrirspurn til hæstv. umhverfisráðherra um iðnframleiddar transfitusýrur í matvælum, það var á 131. löggjafarþingi. Þá var nú ósköp fátt um svör og langt í það að ráðherra treysti sér til að lýsa því yfir að hægt væri að koma takmörkunum á en það yrði gert síðar. En ég tel að tími sé kominn til þess að við gerum það og tökum Dani okkur til fyrirmyndar. Um þetta efni ættum við að geta sameinast hér á þessu haustþingi og með því móti farið út í fyrirbyggjandi aðgerðir og eflt lýðheilsu.