136. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2008.

hámarksmagn transfitusýra í matvælum.

45. mál
[16:15]
Horfa

Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu um setningu reglna um hámarksmagn transfitusýra í matvælum. Þó nokkuð margir hv. þingmenn skrifa undir tillöguna en 1. flutningsmaður er hv. þm. Siv Friðleifsdóttir.

Ég vil geta þess strax í upphafi að ég er ekki einn af þeim þingmönnum sem skrifa undir tillöguna eins og hún birtist á þessu þingi og ég vil gera örlitla grein fyrir því hvers vegna ég er ekki með á tillögunni. Ég vil byrja á því að segja að það er ekki vegna þess að mér þyki málið ekki gott en ég hefði viljað fara örlítið öðruvísi í þennan málaflokk. Ég held í raun að sú stutta ræða sem ég hyggst flytja hér, frú forseti, verði bara til þess að ítreka verkefnið sem slíkt og hversu nauðsynlegt það er. En þingsályktunartillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að hefja undirbúning að setningu reglna um að hámarksmagn transfitusýra í matvælum verði tvö grömm í hverjum hundrað grömmum af fitumagni vörunnar.“

Ég hefði viljað hafa þessa tillögu dálítið víðtækari og kveða á um meiri fræðslu hvað þetta varðar, að tillagan geri meiri kröfur en að bara séu búnar til reglur. Eins og kom fram hjá hv. framsögumanni, Siv Friðleifsdóttur, hafa þessi mál verið rædd á tveimur undangengnum Norðurlandaráðsþingum og ég hef einmitt tekið þátt í þeirri umræðu. En munurinn í hinni svokölluðu dönsku leið þar sem verið er að tala um boð og bönn og setja reglur og reyna að fylgja þeim eftir, og annarri leið er sá að hafa gríðarlega mikið af upplýsingum og fræða almenning, eins og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir gerði að umtalsefni áðan og hélt mjög faglegt erindi um málið. Það er einmitt það sem ég vil, að við vekjum verulega athygli á þessu máli. Ég tel að við eigum að gera það annars vegar með því að setja ákveðnar reglur, einhver mörk og einhver markmið, og hins vegar og ekki síður að líta á þetta sem heilbrigðismál, eins og reyndar hefur komið fram í ræðum þingmanna, og gera þetta svolítið með frjálsum og fúsum vilja fólks. Í Svíþjóð til að mynda eru fyrirtæki með merkingar á matseðlum þar sem sagt er hvort notaðar eru transfitusýrur eða ekki. Ég tel að við þurfum að horfa til þess hvað þennan málaflokk varðar að koma þessum upplýsingum sem fræðslu til notenda þannig að fólk verði meðvitað um hvað um er að ræða.

Við erum með reglur bæði varðandi neyslu á áfengi og tóbaki og höfum bannað notkun á tóbaki á tilteknum stöðum og þrátt fyrir að við séum með miklar upplýsingar um skaðsemi tóbaks er viss hluti fólks sem notar það en gerir það þá meðvitað um skaðsemi þess.

Frú forseti. Ég vil vinna að framgangi þessarar tillögu í svolítið breyttri mynd og ég held að það sé fyrst og fremst til góðs fyrir verkefnið vegna þess að þetta er stór þáttur í heilbrigðismálum okkar. Þetta er líka þáttur í markaðssetningu Íslands fyrir ferðamenn. Það má því líta á þetta frá mörgum hliðum. Ég vil ekki gera lítið úr því sem hér hefur raunar komið fram í framsöguræðum að lýsið er mikilvægt fyrir okkur. Kannski ættum við að vera með miklu meiri fræðslu og áróður fyrir því að fólk noti lýsi á Íslandi. Þetta er þvílíkur vökvi sem gerir okkur gott allt frá vöggu til grafar. Við ættum að leggja það sem lóð á vogarskálina fyrir þetta málefni að nefna lýsið og koma því t.d. inn í skólamáltíðir ef nefna má einhverja þætti hvað það varðar.