136. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2008.

Seðlabanki Íslands.

50. mál
[16:32]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Erindi mitt í þennan ræðustól er eitt og það er að lýsa eftir Samfylkingunni. Seðlabankar hafa vissulega verið í kastljósi fjölmiðla um allan heim, bæði austan hafs og vestan á undanförnum vikum eins og við þekkjum. Þeir hafa brugðist við fjármálakreppunni með ýmsum hætti, hægri/vinstri eins og gengur og ýmist mokað fé í banka eða þjóðnýtt þá eftir aðstæðum hverju sinni.

Hér á Íslandi hefur umræðan um fjármálakreppuna nokkuð snúist í kringum ekki bara Seðlabankann heldur einn bankastjóra og formann bankastjórnar Seðlabankans. Ég verð í tilefni af því að segja að það er eitt að ráða pólitíkusa sem bankastjóra Seðlabankans en annað að hann haldi sig áfram í pólitík og taki jafnvel að sér að vera blaðafulltrúi ríkisstjórnar, eins og hér hefur verið bent á, og hirti ráðherra eftir því sem hentar.

Ég tók eftir því í dag, frú forseti, að hæstv. forsætisráðherra hefur opnað efnahagsskrifstofu í forsætisráðuneytinu. Ekki veit ég hvort það eru viðbrögð við þeirri gagnrýni sem Samfylkingin lét bóka um á ríkisstjórnarfundi og leka síðan þaðan út. Ég verð hins vegar að segja að ég tel að það sé kominn tími til að endurvekja Þjóðhagsstofnun um leið og sjálfstæði og faglegir burðir Seðlabankans eru styrktir. En það undrar mig að þegar tækifæri gefst til að ræða sérstaklega um stöðu Seðlabankans og val á seðlabankastjóra og það hvernig menn eru upplýstir um vaxtaákvarðanir þessa sama banka þá skuli Samfylkingin ekki láta sjá sig í þessum sal að undanteknu þó því að í þessum töluðu orðum mínum gengur nú í salinn einn hv. þingmaður, Karl V. Matthíasson, og vænti ég þess að hann taki til máls um þessa merku tillögu, ella mun það sannast sem góður maður sagði við mig á dögunum um Samfylkinguna, að hún væri hér í dag og þar í gær en hvergi þegar á henni þarf að halda.