136. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2008.

Störf þingsins.

[13:50]
Horfa

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa fyrirspurn. Mig langar að byrja á að upplýsa það að viðskiptanefnd heldur fund í þriðja sinn í vikunni á morgun þannig að við höfum fundað nokkuð títt að undanförnu en frá 17. október hafa verið haldnir sjö fundir og sá áttundi verður á morgun.

Farið hefur fram mjög víðtæk umræða í nefndinni um málefni fjölskyldna, launþega og neytenda, um málefni sem tengjast gjaldeyrismálum, fjármálamarkaði, peningamarkaðssjóðum, um málefni sparisjóðanna og nú síðast bráðavanda fyrirtækjanna. Það var umræðuefnið í nefndinni í gær og verður aftur á morgun.

Ég tek undir margt af því sem kom fram í máli hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar því að ég er alveg sammála því að núna þegar staðan er svo grafalvarleg að elstu menn muna ekkert líkt þá á að sjálfsögðu að endurskoða leikkerfi eða leikfléttu þingsins. Ég ætla að leyfa mér að skora á forseta þingsins og þá sem ákveða dagskrá þingsins að ýta aðeins til hliðar því sem við erum að ræða þessa dagana í þinginu og hugleiða hvort ekki sé kominn tími á einhvers konar forgangsröðun í ljósi þeirra staðreynda sem við blasa. Í dag er 5. nóvember og ég ætla að lesa upp dagskrá þingsins í dag, með leyfi forseta, hún er skráð fyrir framan hv. þingmenn og hljóðar svona:

1. Störf þingsins.

2. Tæringaráhrif brennisteinsvetnis í andrúmslofti, fyrirspurn.

3. Sæstrengir í friðlandi Surtseyjar, fyrirspurn.

4. Mengunarmælingar við Þingvallavatn, fyrirspurn.

5. Mælingar á brennisteinsvetni í andrúmslofti, fyrirspurn.