136. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2008.

tæringaráhrif brennisteinsvetnis í andrúmslofti.

104. mál
[14:12]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tel að þær fyrirspurnir sem liggja fyrir iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra í dag séu mikilvægar og nauðsynlegt að fá svör við þeim. Jafnframt tel ég mikilvægt að þingstörfin séu sveigjanleg og að hægt sé að koma og eigi að koma inn á dagskrá umræður um efnahagsmál umfram það sem verið hefur til þess að opna umræðuna um þau mál sem brenna á okkur öllum.

Hvað varðar fyrirspurnina og tæringaráhrif brennisteinsvetnis í andrúmslofti þá veit ég að það liggur ekki inni á borði hæstv. iðnaðarráðherra en ég tel afar brýnt að sett verði af stað lýðheilsurannsókn sem taki yfir langt tímabil. Tæringaráhrif brennisteinsvetnis í andrúmslofti hafa áhrif á heilsufar manna og dýra, langtímaáhrif, sérstaklega hvað varðar fólk sem er með astma og lungnasjúkdóma og á (Forseti hringir.) einkanlega við um þá sem búa nærri slíkum virkjunum. Ég hvet því iðnaðarráðherra til að huga að slíkri rannsókn sem taki yfir langt tímabil hvað varðar mengun af þessu tagi.